Viðskipti innlent

Evrópska fyrirtækjavikan hefst á morgun

Evrópska fyrirtækjavikan hefst á Grand hóteli á morgun, 26. maí. Þar fá frumkvöðlar, fulltrúar fyrirtækja í nýsköpun og einstaklingar með viðskiptahugmyndir tækifæri til að fá heildstætt yfirlit yfir stuðning við nýsköpun á Íslandi.

Í tilkynningu segir að tíu frumkvöðlar og fulltrúar fyrirtækja í nýsköpun miðla af reynslu sinni og á annan tug aðila úr stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi kynna þjónustu sína á fundinum.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís, Samtök iðnaðarins og Útflutningsráð ásamt Hátækni- og sprotavettvangi standa að viðburðinum í tilefni af evrópsku fyrirtækjavikunni SME Week 2010 sem haldin er hátíðleg um alla Evrópu dagana 25. maí - 1. júní. Markmið kynningarinnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir fyrirtæki og frumkvöðla á Íslandi.

Á meðal fyrirtækjanna sem miðla af reynslu sinni af styrkjamöguleikum, frumkvöðlasetrum og annarri þjónustu fyrir fyrirtæki í nýsköpun eru Gogogic, Nox Medical, Bláa lónið, Knitting Iceland, Clara, Marorka, Remake Electric og Transmit auk Róshildar Jónsdóttur vöruhönnuðar. Á fundinum verða tvær málstofur, annars vegar fyrir einstaklinga með nýjar viðskiptahugmyndir og fyrirtæki í startholunum og hins vegar fyrir þroskaðri sprotafyrirtæki og fyrirtæki í nýsköpun, og ættu því aðilar á ýmsum stigum í nýsköpunarferlinu að fá upplýsingar við sitt hæfi.

Þeir aðilar sem kynna þjónustu sína í básum eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Útflutningsráð, Rannís, Samtök iðnaðarins, Innovit, Klak - nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Frumtak, Einkaleyfastofa, Kauphöllin, Hönnunarmiðstöð, Byggðastofnun, Vinnumálastofnun og Matís.

Þetta er í annað sinn sem evrópska fyrirtækjavikan er haldin en yfir 300 manns mættu á sambærilegan viðburð í Reykjavík fyrir ári síðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×