Viðskipti innlent

Fjárfestingastofa Íslands veit ekki af kreppunni

Ef trúa skal heimasíðu Fjárfestingarstofu Íslands, www.invest.is, þar sem ætlunin er að laða erlenda fjárfesta til landsins virðist sem kreppan hafi aldrei skollið á Íslandi. Þar er talað um, á einum sjö tungumálum, að viðskiptaumhverfi landsins sé á hraðri hreyfingu, einbeitt og vinalegt fyrirtækjum.

 

Þá er tekið fram að viðskiptaumhverfinu sé ekki íþyngt með flóknu regluverki né miklum sköttum. Hvað innri byggingu og þjála stjórnun varðar sé Ísland á toppinum í alþjóðlegum stöðlum.

 

Þeir erlendu fjárfestar sem áhuga hafa á því að kynna sér möguleikana á Íslandi nánar get svo opnað pdf skjal undir heitinu Doing business in Iceland eða Að stunda viðskipti á Íslandi. Vandamálið er bara að þetta skjal var síðast uppfært í febrúar árið 2008.

 

Hinn áhugasami fjárfestir fær að vita á fyrstu síðum Doing business in Iceland að engar hömlur séu á Íslandi hvað varðar kaup og sölu á gjaldeyri. Nokkuð sem er í hrópandi andstöðu við núverandi gjaldeyrishöft. Margt annað er einnig verulega á skjön við veruleikann í dag eins og til dæmis þar sem fjallað er um skattaumhverfi fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi.

 

Nýlega skrifuðu forráðamenn Fjárfestingarstofu Íslands bréf í Morgunblaðið þar sem þeir kvörtuðu undan því að fá ekki nægilegt fjármagn til þess að kynna þá kosti sem eru í boði á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta. Miðað við að þessir menn geta ekki einu sinni uppfært heimasíðu sína virðist eitthvað til í þeim umkvörtunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×