Innlent

Ragnheiður ósátt við landsfundarsamþykkt

Ragnheiður Ríkharðsdóttir
„Þó svona hafi farið í þetta sinn, þá stendur maður bara áfram á sinni skoðun,“ segir hún.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir „Þó svona hafi farið í þetta sinn, þá stendur maður bara áfram á sinni skoðun,“ segir hún. Fréttablaðið/ANTON

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, segist langt frá því að vera sátt við samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins um Evrópusambandið.

„Það eru mikil vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skuli setja fram skýra kröfu um að aðildarviðræðurnar verði dregnar til baka í stað þess að einhenda sér í það, eins og flokkurinn hefur alltaf gert, að hafa forystu í utanríkismálum," segir Ragnheiður. Hún segist þó alls ekki ætla að gefast upp á flokknum heldur berjast áfram fyrir því að skoðun sín hljóti hljómgrunn innan flokksins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sjálfstæðismenn þurfi að horfast í augu við að aðildarferlið sé hafið. Því sé æskilegra að menn sameinist um að berjast fyrir hagsmunum Íslands í aðildarviðræðum við sambandið.

Þá sagði Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, við fréttastofu Vísis í gær að frá sínum bæjardyrum séð hefði flokkurinn tekið mjög óskynsamlega ákvörðun með stjórnmálaályktuninni. Niðurstaða landsfundar væri bæði vond fyrir flokkinn og Evrópumálstaðinn.

Hvorki Þorgerður né Þorsteinn segjast sjá fyrir sér stofnun nýs flokks óánægðra sjálfstæðismanna. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×