Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar eða Serious Fraud Office (SFO) hefur lokið rannsókn sinni á viðskiptum JJB Sports og Sports Direct. SFO ákvað að gefa ekki út ákærur en segir í tilkynningu að rannsókn á einstaklingum sem tengdust þessum viðskiptum og fyrirtækjum haldi áfram.
Í tengslum við þessa rannsókn fór SFO, ásamt mönnum frá embætti sérstaks saksóknara á Íslandi, í húsleitir á skrifstofur Exista og Bakkavarar í Bretlandi, það er í London og Lincoln-héraði í janúar s.l
Í frétt um málið á visir.is frá 26. janúar segir að starfsfólk sérstaks saksóknara ásamt starfsfólki Serious Fraud Office í Bretlandi gerði húsleit hjá Exista klukkan níu í morgun samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.
Rannsókn sérstaks saksóknara beinist að hlutafjárhækkun Exista í desember 2008 og viðskiptum með hluti Exista í Bakkavör.
Rannsókn Serious Fraud Office beindist að viðskiptum með hluti Exista í JJB Sports.
Chris Ronnie, fyrrum forstjóri JJB Sports, er áfram til rannsóknar vegna gruns um ólöglegan flutning á eignarhlut sínum í verslunarkeðjunni til Kaupþings, en þann hlut áttu Ronnie og Exista saman.
Þá var einnig verið að rannsaka falsaða risnureikninga, hugsanlegan þjófnað á eigum verslunarkeðjunnar og leka á upplýsingum úr bókhaldi hennar áður en milliuppgjör var birt í september 2008.
Eignarhaldsfélag í eigu Chris Ronnie skuldaði Kaupþingi á Íslandi tæpa 30 milljarða þegar það fór á hausinn í janúar síðastliðnum.
Þá var efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar einnig að rannsaka meint samráð á milli JJB Sports og verslunarkeðjunnar Sports Direct International.