Viðskipti innlent

Aðalpersóna úr rannsóknarskýrslunni ráðin til Arion

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jónína S. Lárusdóttir hefur verið ráðin til Arion banka.
Jónína S. Lárusdóttir hefur verið ráðin til Arion banka.
Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka. Í tilkynningu sem starfsfólk bankans fékk senda í lok júlí kemur fram að Jónína muni hefja störf í bankanum eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.

Segja má að Jónína hafi vakið nokkra athygli á árinu. Hún er ein af aðalpersónunum í mest seldu bók ársins, skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en hún var ein af tólf manns sem fengu rétt til að senda nefndinni skriflegar athugasemdir við það sem kom fram í skýrslunni.

Auk Jónínu fengu eftirtaldir rétt til að senda Rannsóknarnefnd Alþingis andmælabréf

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra

Árni M. Matthiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra

Davíð Oddsson, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands og formaður bankastjórnar

Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands

Eiríkur Guðnason, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands

Bolli Þór Bollason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti

Áslaug Árnadóttir, sem var settur ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins og

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Arion banki er að mestu leyti í eigu skilanefndar Kaupþings en um 13% hlutur er í eigu íslenska ríkisins.

Ekki náðist í Höskuld Ólafsson, forstjóra Arion, við vinnslu þessarar fréttar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×