Handbolti

Guðmundur tekur við Rhein-Neckar Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta og nú þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta og nú þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Mynd/Daníel

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta hefur tekið við starfi þjálfara hjá Rhein-Neckar Löwen og skrifað undir fimm ára samning þess efnis.

Þeim Ola Lindgren og Kent-Harry Anderson hefur verið sagt upp störfum en Löwen tapaði á dögunum fyrir Magdeburg.

Jesper Nielsen, aðaleigandi félagsins, segir að miðað við þróun mála undanfarnar vikur og mánuði komi þetta honum ekki á óvart. „Ég er með háleit markmið fyrir Rhein-Neckar Löwen og mér fannst þetta réttur tímapunktur fyrir þessar breytingar."

Guðmundur var fyrr á þessu ári ráðinn sem íþróttastjóri bæði Rhein-Neckar Löwen og AG Kaupmannahöfn en bæði félög eru í eigu Jesper Nielsen.

„Þetta er mikil áskorun fyrir mig. Möguleikar liðsins eru miklir og allar aðstæður hjá félaginu eru stórfenglegar," sagði Guðmundur Guðmundsson við þýska miðla. Hann mun stýra Löwen í fyrsta sinn þegar liðið mætir Barcelona í Meistaradeild Evrópu á laugardaginn.

Eftir því sem kemur fram á heimasíðu Rhein-Neckar Löwen mun Guðmundur láta af störfum sem íþróttastjóri félagsins.

Hins vegar er óljóst hvaða áhrif ráðningin hefur á störf Guðmundar hjá HSÍ og AG Kaupmannahöfn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×