Viðskipti innlent

Heldur dregur úr ásókn í leiguhúsnæði

Í júlí síðastliðnum var samtals 840 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst. Þetta er nokkur fjölgun frá því sem sést hefur undanfarna mánuði en það sem af er ári hefur að meðaltali 760 leigusamningum um íbúðarhúsnæði verið þinglýst í mánuði hverjum. Þetta er hinsvegar fækkun um 40 samninga frá því í sama mánuði fyrir ári síðan þegar 880 samningum var þinglýst.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að heldur virðist vera að draga úr þeirri miklu sókn sem varð í leiguhúsnæði í kjölfar bankahrunsins. Fyrstu 7 mánuði þessa árs var til að mynda samtals 5.436 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst sem er fækkun um tæplega 3,5% frá sama tímabili fyrir ári síðan.

Engu að síður er enn um gríðarlega mikil sókn í leiguhúsnæði miðað við það sem áður var. Þannig var t.d. aðeins 5.000 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á ári að meðaltali frá árinu 2005 og til og með 2007.

Engan þarf að undra að sókn í leiguhúsnæði hafi verið jafn mikil og raun ber vitni undanfarin misseri. Mikil óvissa ríkir á íbúðamarkaði um hvernig framboð og eftirspurn muni þróast þar sem endurskipulagning á skuldum heimilanna er enn í vinnslu.

Þessi óvissa sem hefur skapast um hvaða úrræði séu í boði og hvort meira sé í vændum hefur gert það að verkum að margir halda að sér höndum og bíða. Nú hefur óvissa um lögmæti gengistryggðra húsnæðislána bæst við og aukið enn á óvissuna. Í árferði sem þessu er því eðlilegt að margir sem áður hefðu íhugað íbúðakaup leiti á leigumarkaðinn og því má búast við að leigumarkaðurinn verði enn um sinn nokkuð eftirsóttur kostur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×