Viðskipti innlent

Getum sjálf kennt okkur um kreppuna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna segir að hrunið hafi reynst Íslendingum dýrt. Mynd/ Anton.
Jóhanna segir að hrunið hafi reynst Íslendingum dýrt. Mynd/ Anton.
Ísland er hugsanlega komið lengra á veg með að fást við alþjóðafjármálakreppuna en mörg önnur ríki í Evrópu, segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í grein sem birtist eftir hana í Businessweek.

Fjármálakreppan og eldgosið við Eyjafjallajökul eru Jóhönnu hugleikin í greininni. Hún segir að mennirnir séu máttvana gagnvart náttúruöflunum. En þegar kemur að alþjóðafjármálakreppunni getum við engum kennt um nema okkur sjálfum.

Einkavæddir bankar hafi nýtt sér ódýr lán og þannig stækkað margfalt í hlutfalli við íslenska hagkerfið. Bankarnir hafi svo hrunið þegar að alþjóðafjármálakreppan skall af fullum þunga á okkar hluta heimsins.

Jóhanna segir að hrun hagkerfisins hafi reynst Íslendingum dýrt og muni áfram kosta sársauka. Hins vegar sé uppgjörið hafið af fullum krafti. Bankarnir hafi verið endurreistir. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem komin er út, sé grundvöllur endurreisnar og að vinna sérstaks saksóknara sé orðin áþreifanleg.

Þá segir Jóhanna í greininni að grunnstoðir hagkerfisins standi þrátt fyrir allt föstum fótum og að niðursveiflan í hagkerfinu hafi ekki orðið eins mikil og óttast hafi verið í fyrstu. Allir hagvísar bendi til þess að hagkerfið muni ná bata.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×