Handbolti

Kári skoraði fjögur mörk í tapi á móti Kiel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristjánsson sést hér skora eitt fjögurra marka sinna í kvöld.
Kári Kristjánsson sést hér skora eitt fjögurra marka sinna í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Alfreð Gíslason stýrði Kiel til sjötta sigursins í röð í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld þegar liðið vann níu marka heimasigur á Kára Kristjánssyni og félögum í Wetzlar, 38-29. Kiel komst upp fyrir Rhein-Neckar-Löwen og í toppsætið með þessum sigri.

Kiel var 22-17 yfir í hálfeik en tókst þó ekki að slíta sig frá Wetzlar-liðinu fyrr en í seinni hálfleik. Í stöðunni 23-22 skoruðu Kielar-menn sex mörk í röð á fimm mínútna kafla og litu ekki til baka eftir það.

Kári Kristjánsson skoraði 4 mörk fyrir Wetzlar í leiknum en Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Kiel. Filip Jicha var markahæstur hjá Kiel með 11 mörk en Momir Ilic skoraði 6 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×