Viðskipti innlent

Reiðufé nam 43,5 milljörðum í Avenskaupunum

Af þeim eignum sem Seðlabankinn keypti af Avens B.V. félagi í eigu Landsbankans í Lúxemborg nam reiðufé alls 43,5 milljörðum kr. og var hlutfall þess tæplega 34%.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi. Vigdís spurði m.a. hve hátt var hlutfall reiðufjár í kaupunum á útistandandi skuldabréfum Avens B.V. sem voru í eigu Landsbankans í Lúxemborg og hver var upphæðin í íslenskum krónum á kaupdegi?

Í svarinu segir: „Með kaupunum í maí sl. á öllum útistandandi skuldabréfum félagsins Avens B.V. tók Seðlabankinn, f.h. ríkisjóðs, yfir stjórn félagsins og leysti það upp. Eignir félagsins; íbúðabréf, ríkisbréf og reiðufé, samtals að andvirði 128,5 milljarðar kr. runnu þá til ríkisjóðs. Andvirði íbúðabréfanna og ríkisbréfanna nam 85 milljörðum kr. og reiðufjár 43,5 milljörðum kr. Hlutfall reiðufjár nam því tæpum 34%."

Þá segir að kaupverð skuldabréfa Avens B.V. var 74,6 milljarðar kr. og skiptist þannig að erlend skuldabréf útgefin af íslenska ríkinu námu 401,5 milljónum evra að höfuðstólsfjárhæð en reiðufé nam annarsvegar 35 milljónum evra og hinsvegar fimm milljörðum kr.

Vigdís vildi einnig vita hve hátt var hlutfall íbúðabréfa í þessum kaupum og hver var upphæðin í íslenskum krónum á kaupdegi?

Í svarinu segir að meðal eigna Avens B.V. voru skuldabréf gefin út af Íbúðalánasjóði fyrir um 76,1 milljarða kr. á markaðsverði og námu um 59% af viðskiptunum.

Þá spurði Vigdís hve hátt var hlutfall ríkisbréfa í þessum kaupum og hver var upphæðin í íslenskum krónum á kaupdegi?

Í svarinu segir að meðal eigna Avens B.V. voru skuldabréf gefin út af ríkissjóði fyrir um 8,9 milljarða kr. á markaðsverði og námu um 7% af viðskiptunum.

Ennfremur kemur fram í svarinu að til viðbótar íbúðabréfum sem ríkissjóður eignaðist við kaup á skuldabréfum Avens B.V. keypti ríkissjóður af Eignarhaldsfélagi Seðlabankans íbúðabréf að markaðsvirði um 45 milljarða kr., sem fjármagnað var að mestu með reiðufé sem fékkst við kaup á skuldabréfum Avens.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×