Viðskipti innlent

Aðhald ríkisins var of lítið í uppsveiflunni

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði áhyggjur af Íslandi fyrir löngu síðan.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði áhyggjur af Íslandi fyrir löngu síðan.

Þótt töluvert hafi dregið úr skuldum ríkissjóðs á árunum 1995 til 2005 í hlutfalli við verga landsframleiðslu þá lækkuðu þær ekki mikið að nafnvirði.

Árið 1998 voru heildarskuldir ríkissjóðs 381 milljarður krónur en 2001 höfðu þær aukist í 491 milljarð krónur. Þetta er meðal annars það sem kemur fram í sjöunda bindi rannsóknarskýrslunnar og snýr að hagstjórn ríkisstjórnarinnar frá 1995 til 2005.

Þar segir ennfremur að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) bentu ítrekað á það á undanförnum árum að aðhald ríkisins væri of lítið í uppsveiflunni.

OECD lagði ítrekað til að ríkið myndi setja sér þak á útgjöld til nokkurra ára í senn og miða vöxtinn við krónutölu í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans frekar en að skilgreina útgjaldavöxt í raunstærðum.

Þá höfðu þessar stofnanir verulegar áhyggjur af vaxandi framúrkeyrslum útgjalda, einkum hjá sveitarfélögum.

Bent var á að sveitarfélögin hefðu enn meiri tilhneigingu en ríkið til að eyða tímabundnum hagnaði vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu. Rannsóknarnefnd Alþingis er sammála því að aðhald í ríkisfjármálum hefði átt að vera meira á árunum 2003-2007, sérstaklega í ljósi þeirra skattalækkana sem hrint var í framkvæmd á þeim tíma.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×