Viðskipti innlent

Bakkavararbróðir nær sátt í skuldamáli

Ágúst Guðmundsson annar aðaleigandi Bakkavarar hefur, ásamt eiginkonu sinni, náð sátt í skuldamáli upp á tæplega 7,5 milljónir evra eða tæplega 1,2 milljarða kr. Um var að ræða kröfu vegna kaupa á frönskum skíðaskála árið 2007.

Fjallað er um málið í Financial Times. Þar segir að Ágúst og Þuríður Reynisdóttir hafi fengið lán frá Kaupþingi í Luxemborg fyrir skíðaskálanum sem staðsettur er í Chamonix í frönsku Ölpunum. Lánið komst síðan í hendur Pillar Securitisation, félags sem yfirtók lánabók Kaupþings í Lúxemborg eftir að bankinn fór í þrot.

Í Financial Times segir að þau hjónin hafi ekki staðið við afborgun í nóvember í fyrra og þá hafi Pillar Securitisation ákveðið að gjaldfella allt lánið en eftirstöðvar þess námu þá tæpum 6,6 milljónum evra.

Pillar Securitisation fór síðan í mál við hjónin fyrir High Court í London en samkvæmt Financial Times hefur náðst sátt í málinu.

Blaðið rifjar upp stöðu þeirra Ágúst og Lýðs Guðmundssona sem stærstu hluthafa Kaupþings í gegnum Exista. Þá hafi efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar gert húsleit á skrifstofum Bakkavarar í janúar s.l. í tengslum við rannsókn á Exista.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×