Fastir pennar

Skuldaþak er skynsamlegt

Ólafur Stephensen skrifar

Fréttablaðið sagði í gær frá tillögum, sem meðal annars eru unnar í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ganga út á að þak verði sett á það hversu mikið sveitarfélögum verður heimilt að skuldsetja sig. Rætt er um að horfa þá til allra skulda sveitarfélaganna, bæði A-hlutans, sem tekur til hefðbundins rekstrar og er fjármagnaður með skattfé, og B-hlutans, en í honum eru fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna með sjálfstæða tekjustofna, til dæmis hafnir og orkuveitur. Tillögurnar ganga út frá að skuldaþakið verði 150% af heildartekjum sveitarfélaganna.

Verði þessar tillögur að lögum, gerir það út af fyrir sig ekki mikið til að bæta þá afleitu fjárhagsstöðu, sem mörg sveitarfélög eru komin í. Skuldastaða þeirra margra er umfram markið sem rætt er um og lögfesting þess verður þannig ekki annað en staðfesting á þeirri leið heilbrigðrar skynsemi að reyna að ná skuldunum niður með aðhaldi og hagræðingu í rekstri.

Hins vegar getur skuldaþak komið í veg fyrir að staðið verði að rekstri sveitarfélaga með jafnábyrgðarlausum hætti og reyndin er um þau mörg á undanförnum árum. Það er staðreynd að mörg sveitarfélög skuldsettu sig í góðærinu, þrátt fyrir vaxandi tekjur. Stjórnmálamenn, sem vildu kaupa sér vinsældir, létu ekki duga að framkvæma fyrir tekjuaukann, hvað þá að greiða niður skuldir, heldur nýttu sér jafnframt aðganginn að ódýru fjármagni til að taka lán. Mörg dæmi eru um að þegar innlendur lánamarkaður varð tregari til að lána, hafi verið tekin erlend lán. Það fór síðan eins og það fór þegar krónan hrundi.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenzkra sveitarfélaga, sagði í fréttum Bylgjunnar í gær að væri fjárhagsstaða sveitarfélaga borin saman við stöðu ríkisins kæmu sveitarfélögin vel út úr þeim samanburði. Það er rétt svo langt sem það nær. Halldór gleymir hins vegar að geta þess að ríkissjóður hafði greitt niður skuldir í góðærinu og var betur í stakk búinn en ella að taka á sig þá gríðarlegu bagga, sem fylgt hafa bankahruninu, þar með talið gjaldþrot Seðlabankans, endurfjármögnun bankanna og Icesave-skuldirnar. Sveitarfélögin juku skuldir sínar þegar þeim bauðst einmitt sama tækifæri og ríkinu til að greiða þær niður.

Rétt eins og hjá ríkinu er framundan mikil tiltekt í fjármálum sveitarfélaganna. Hugsanlega knýr hún fram fleiri sameiningar sveitarfélaga. Þau eru enn of mörg og lítil og hafa sum hver ekki burði til að takast á við lögbundin verkefni.

Skuldaþakið er skynsamlegt, vegna þess að ekki er víst að allir stjórnmálamenn hafi lært af reynslunni. Og á eftir þeim sem nú sitja í sveitarstjórnum kunna að koma pólitíkusar sem finnst í lagi að skuldsetja næstu kynslóð til að koma hugmyndum sínum sem fyrst í framkvæmd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×