Viðskipti innlent

Þjóðverjar gætu eignast Byr en Íslandsbanki bætist í hóp áhugasamra

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Ekki er útilokað er þýskur banki verði stærsti hluthafi Byrs, en viðræður um uppgjör á eignum hans hafa tafist. Margir renna hýru auga til Byrs, þar á meðal bankastjóri Landsbankans, sem vill sameina Byr og Landsbankann. Þá hefur Íslandsbanki einnig áhuga.

Byr sparisjóður uppfyllti ekki kröfur fyrir stofnfjárframlagi ríkissjóðs eftir að ráðist var í endurskipulagningu sparisjóðsins síðastliðinn vetur. Stjórn Byrs skilaði því starfsleyfinu til FME í apríl síðastliðnum. Í kjölfarið var stofnað hlutafélagið Byr hf. til að halda utan um reksturinn og voru innstæður og lán viðskiptamanna færðar þangað.

Viðræður hafa nú staðið yfir milli slitastjórnar Byrs, fjármálaráðuneytisins og erlendra kröfuhafa Byrs um verð þeirra eigna sem færðar voru yfir til hins nýja hlutafélags Byrs. Embættismaður í fjármálaráðuneytinu sagði að ekki lægi enn fyrir samkomulag um verðmæti eignanna sem flutt voru yfir til hins nýja hlutafélags. Þegar það samkomulag lægi fyrir yrði Byr annað hvort seldur hér innanlands í heilu lagi, eða skipt milli kröfuhafa gamla sparisjóðsins. Stærsti kröfuhafi gamla Byrs er þýski bankinn Bayerische Landesbank. Þá eiga íslenskir lífeyrissjóðir stórar kröfur.

PricewaterhouseCoopers vann verðmat á eignum Byrs sparisjóðs í apríl 2009 og aftur í nóvember sama ár. Eva B. Helgadóttir, formaður slitastjórnar Byrs, sagði að ekki væri ágreiningur um verðmæti þessara eigna, en hún vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti. Jón Finnbogason, forstjóri Byrs hf., tók undir þetta og sagðist ekki kannast við að það væri ágreiningur um verðmæti eignanna. „Það hefur ítrekað verið farið yfir verðmatið og því er athyglisvert ef menn eru að halda þessu fram," segir Jón.

Erlendir kröfuhafar Byrs sparisjóðs, sem fór í þrot í vor, höfðu ekki áhuga á því að fjármagna Byr hf. sem starfandi banka. Mikill áhugi er hins vegar á rekstri útibúanetsins enda ljóst að mikil verðmæti felast í því og því líklegt að kröfuhafarnir fái kröfur sínar greiddar með sölu eigna. Margir renna því hýru auga til Byrs, en Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, vill sameina Byr Landsbankanum og nefndi þessa hugmynd í viðtali við Viðskiptablaðið. Þá er einnig áhugi á Byr hjá Íslandsbanka, samkvæmt heimildum fréttastofu. Engar formlegar viðræður hafa þó hafist milli Byrs hf. og áhugasamra fjármálafyrirtækja.

Það sem menn eru sérstaklega spenntir fyrir er dótturfélagið Teris, sem er þjónustukerfi sparisjóðanna, en Byr hf. á 36 prósenta hlut í því. Landsbankinn telur sig geta tekið kerfið yfir og þjónustað alla sparisjóðina og það er m.a á þessari forsendu sem Steinþór vill sameina Byr og Landsbankann.

Jón Finnbogason, forstjóri Byrs, sagði að breytt eignarhald Byrs myndi ekki hafa nein áhrif á viðskiptavini. Þeirra hagsmunir hefðu verið tryggðir með lögum, auk þess sem innstæður væru tryggðar í samræmi við fyrri yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

„Áhugi annarra fjármálafyrirtækja á Byr kemur mér ekki á óvart" segir Jón. Hann segir að um traust fyrirtæki sé að ræða með góðan viðskiptamannahóp og öflugt starfsfólk. Útibú Byrs í Hafnarfirði, áður útibú SPH, hefur mikla þýðingu fyrir marga Hafnfirðinga og hefur það verið byggt upp á grundvelli persónulegrar þjónustu og sambands við sparifjáreigendur og aðra viðskiptavini. Tólf af átján starfsmönnum útibús Byrs í Hafnarfirði hafa starfað við fjármálaþjónustu í tuttugu ár eða lengur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×