Viðskipti innlent

Steingrímur þögull um möguleg skaðabótamál vegna gengisdóms

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon tjáir sig ekki um möguleg málaferli kröfuhafa bankanna gegn ríkinu .
Steingrímur J. Sigfússon tjáir sig ekki um möguleg málaferli kröfuhafa bankanna gegn ríkinu .
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vill ekki tjá sig um viðbrögð sín gagnvart mögulegum málaferlum kröfuhafa gömlu bankanna vegna hæstaréttardómsins frá 16. júní vegna gengistryggðu lánanna.

Greint hefur verið frá því í Fréttablaðinu og í kvöldfréttum Stöðvar 2 að skilanefndir Glitnis og Kaupþings, sem eru að stærstum hluta til eigendur Íslandsbanka og Arion, hafi kannað grundvöll þess að höfða skaðabótamál gegn ríkinu vegna forsendubrests í samningum. Við flutning á eigum gömlu bankanna í þá nýju hafi ekki verið gert ráð fyrir kostnaði vegna ólögmætra gengistryggðra lána. „Ég ætla ekkert að tjá mig um það. Mér finnst menn dálítið fljótir á sér að tala um slík mál í fjölmiðlum. Ég allavega bregst ekki við með einum eða neinum hætti," segir Steingrímur þegar hann er inntur eftir viðbrögðum.

Steingrímur segir ennfremur að ráðuneytin séu ekki að undirbúa nein viðbrögð vegna hugsanlegra málaferla sem boðuð séu í fjölmiðlum. Það sé hins vegar alltaf þannig að á hverjum tíma sé hugað að málsvörnum ríkisins þegar þörf krefst. „Og það er svo sem því miður af nógu að taka í þeim efnum," segir Steingrímur. Slík mál séu þá í höndum ríkislögmanns eða annarra sem fengnir séu til starfa þegar á reyni. „Það er bara hluti af skyldum ríkisins að halda uppi vörnum fyrir sjálft sig ef að til slíks kemur," segir Steingrímur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×