Viðskipti innlent

Starfsmönnum SÍ óheimilt að þiggja gjafir eða boðsferðir

Samkvæmt starfs- og siðareglum Seðlabanka Íslands (SÍ) er starfsmönnum bankans óheimilt að þiggja gjafir og boðsferðir. Eina undantekningin er ef ferðirnar eru taldar hafa upplýsingagildi fyrir bankann en þá greiðir bankinn kostnaðinn við ferðina.

Eins og fram hefur komið í fréttum þáði Sigurður Sturla Pálsson framkvæmdarstjóri alþjóða- og markaðssviðs SÍ boðsferð í tvígang með einkaþotu sem hann taldi vera í eigu Milestone.

Í þeim kafla fyrrgreindra reglna sem fjallar um tengsl og samskipti við aðila utan bankans segir orðrétt í þriðju grein:

„Starfsmönnum er óheimilt að þiggja gjafir af viðskiptavinum eða væntanlegum viðskiptavinum séu þær fjárhagslega verðmætar. Undan­teknar eru jóla- og afmæliskveðjur, sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan marka sem teljast algeng í slíkum tilvikum eða ef um er að ræða persónuleg tengsl sem ekki verða rakin til viðskipta við bankann.

Starfsmönnum er óheimilt að þiggja boðsferðir af viðskiptavinum eða væntanlegum viðskiptavinum, innanlands sem utan, hvort sem um er að ræða skemmtiferðir eða kynnisferðir vegna einstakra fyrirtækja. Undantekningar eru ferðir sem talið er að hafi upplýsingagildi fyrir bankann eða geri bankann hæfari til að sinna hlutverki sínu. Í slíkum tilvikum skal yfirmaður meta hvort svo sé, enda greiði bankinn kostnað við ferðina nema annað sé sérstaklega ákveðið."

Í samtali við fréttastofu þann 1. febrúar s.l. segist Sturla tvisvar hafa flogið með þotunni, í bæði skiptin var hann á leið í frí með Steingrími Wernersyni vini sínum. Hann segir að Steingrímur hafi tjáð sér á þessum tíma að þotan hafi verið í eigu þeirra Wernersbræðra. Hann vill ekki fara nánar út í hvert þeir flugu en segir þá eyða miklum frítíma saman. Sigurður segist ekki sjá neitt athugavert við að hann hafi flogið með þotunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×