Viðskipti innlent

Vilja hleypa „vondum“ krónum inn

Erlendir fjárfestar hafa leitað eftir því að kaupa hlut í íslenskum fyrirtækjum og eignum með íslenskum krónum sem voru keyptar á aflandsmörkuðum eftir að gjaldeyrishöft voru sett á. Fram til þessa hefur slíkt verið bannað.  Markaðurinn/Valli
Erlendir fjárfestar hafa leitað eftir því að kaupa hlut í íslenskum fyrirtækjum og eignum með íslenskum krónum sem voru keyptar á aflandsmörkuðum eftir að gjaldeyrishöft voru sett á. Fram til þessa hefur slíkt verið bannað. Markaðurinn/Valli

Unnið er að því að opna fjárfestum leið inn í landið með íslenskar krónur sem þeir hafa keypt á aflandsmörkuðum eftir að gjaldeyrishöft voru sett í nóvember 2008. Ræddar hafa verið ýmsar hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir til að gera þetta mögulegt innan stjórnsýslunnar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Horft er til þess að aflandsféð verði nýtt til að fjármagna íslensk fyrirtæki á meðan dyrnar eru lokaðar landinu á erlendum lánamörkuðum. Ekkert mun fast í hendi og vildi því enginn tjá sig um það opinberlega.

Nokkur fjöldi erlendra fjárfesta mun hafa áhuga á að fjárfesta hér með íslenskum aflandskrónum. Reglur Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti hindra slíka gjörninga, nema í þeim tilvikum að hægt er að sanna að krónurnar hafi verið keyptar fyrir setningu gjaldeyrislaganna í nóvember 2008. Gefi Seðlabankinn ekki græna ljósið á viðskiptin er eina færa leiðin fyrir fjárfestana til að koma krónunum í verð að skipta þeim í erlenda mynt ytra, svo sem evrur. Það þykir óhagstæður kostur enda ljóst að krónurnar seljast ekki nema með verulegum afslætti.

Nokkrar leiðir hafa verið ræddar um það hvaða leiðir verði opnaðar til að hleypa aflandskrónunum inn. Ein þeirra felur í sér að heimila útlendingum að fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum gegn skuldbindingu um að festa fé sitt til eins eða tveggja ára. Önnur er sú að stofna sjóð fyrir aflandsféð, sem muni dreifa áhættunni og fjárfesta í mörgum fyrirtækjum. Sjóðnum yrði stýrt með hefðbundnum hætti.

Viðmælendur Fréttablaðsins segja aflandskrónurnar geta haft góð áhrif á íslensk fyrirtæki, sem ekki eru skráð á hlutabréfamarkað, jafnvel sem vítamínsprauta fyrir nýsköpunarfyrirtækin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×