Viðskipti innlent

Fitch Ratings: Lánshæfi Íslands áfram á neikvæðum horfum

Matsfyrirtækið Fitch Ratings mun ekki breyta neikvæðum horfum á lánshæfiseinkunnum Ríkissjóðs Íslands fyrr en að Íslendingar hafa sýnt fram á meiri framfarir við endurreisn bankanna, slakað hefur verið á þeim gjaldeyrishöftum sem hér hafa verið á um tveggja ára skeið og, síðast en ekki síst, niðurstaða er komin í Icesave deiluna.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið en þetta kom fram í viðtali fréttaveitunnar Reuters við Paul Rawkins, aðstoðarframkvæmdastjóra greiningarteymis Fitch í Lundúnum fyrir helgina. Sem kunnugt er setti Fitch Ratings lánshæfiseinkunn Íslands í svokallaðan ruslflokk í kjölfar þess að forseti Íslands beindi Icesavemálinu í þjóðaratkvæðagreiðslu um síðustu áramót.

Að mati Rawkins dregur nýlegur dómur Hæstaréttar um viðeigandi vexti gengisbundinna lána úr óvissu í bankakerfinu en hann segir þó að enn sé mikið verk óunnið hvað endurskipulagningu á lánabókum bankanna hvað fyrirtæki varðar. Þetta leiðir til þess að efnahagsbatanum geti seinkað hér á landi.

Jafnframt að þau ströngu gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir að fjármagn streymi frá landinu og þá um leið binda fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum krónum virki sem dragbítur á lánstraust Íslands.

Rawkins er bjartsýnn á þriðju endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands, sem er á dagskrá síðar í þessari viku, og þær lánafyrirgreiðslur sem henni fylgja. Þó telur hann að frekari tafir á að sátt náist á milli íslenskra stjórnvalda annars vegar og svo breskra og hollenska hins vegar um Icesave muni seinka þeim fjórum endurskoðunum sem eftir eru.

Af þessu viðtali er ljóst að lausn Icesave-málsins er eitt lykilatriðið til þess að hægt verði að endurreisa lánstraust ríkissjóðs, sem er í samræmi við álit matsfyrirtækjanna Moody´s og Standard & Poor´s. Hefur því lítið breyst frá því að Fitch lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs í byrjun árs í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands að vísa Icesave-samningnum til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Langtíma einkunnir ríkissjóðs í erlendum og innlendum gjaldmiðli eru BB+ og svo BBB-, og eins og áður segir eru horfur neikvæðar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×