Lífið

Fresco leitar að bassaleikara

Hljómsveitin Agent Fresco þegar Borgþór Jónsson spilaði á bassann.
Hljómsveitin Agent Fresco þegar Borgþór Jónsson spilaði á bassann.
Bassaleikarinn Borgþór Jónsson, einn af stofnendum Agent Fresco, er hættur í hljómsveitinni. Óvíst er hver tekur við af honum en sveitin er með nokkra bassaleikara í sigtinu.

„Í marsmánuði tókum við sameiginlega ákvörðun um að Boggi myndi ekki spila á bassa lengur með okkur. En við erum ennþá mjög góðir vinir," segir söngvarinn Arnór Dan Arnarson. „Þetta var ekkert drama. Við tókum bara fund og ákváðum að áður en við myndum gefa út disk væri fáránlegt að túra og spila mikið á meðan hann væri ekki 100% til í þetta."

Að sögn Arnórs er hljómsveitin orðin öðruvísi en sú sem vann Músíktilraunir fyrir tveimur árum. Sveitin hefur sett sér stór markmið og til að fylgja þeim eftir þurfi allir að vera á sömu bylgjulengd.

Fyrstu tónleikar Agent Fresco í fjóra mánuði verða á vorhátíð knattspyrnufélagsins KF Mjaðmar á föstudag. Þá spilar á bassann Vignir úr Ultra Mega Technobandinu Stefáni, sem er góður vinur Fresco-strákanna úr FÍH. Annar bassaleikari sem þeir hafa augastað á er Helgi Eyjólfsson úr Fjallabræðrum.

„Þetta er erfið ákvörðun. Þetta er eins og samband. Við getum ekki valið bassaleikara bara út af því að hann er góður. Við þurfum að höndla að vera saman á tónleikaferðum og það þarf að vera góð tenging á milli strákanna," segir Arnór Dan.

Agent Fresco hefur upptökur á nýrri plötu í ágúst og er hún væntanleg í búðir í október eða nóvember. „Þetta verður svaka konseptplata, full af pælingum," segir hann spenntur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.