Handbolti

Rhein-Neckar Löwen vann þriggja marka sigur á Kiel í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson vann sigur á Alfreð Gíslasyni í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson vann sigur á Alfreð Gíslasyni í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Rhein-Neckar Löwen, lið Guðmundar Guðmundssonar, vann þriggja marka sigur á Kiel, liði Alfreðs Gíslasonar, 29-26, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Ólafur Stefánsson og Aron Pálmarsson áttu báðir góðan leik í kvöld, Ólafur var frábær í seinni hálfleik en Aron átti sviðið í þeim fyrri.

Ólafur Stefánsson skoraði þrjú mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen og Róbert Gunnarsson skoraði eitt mark. Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kiel og komu þau öll í fyrri hálfleik. Guðjón Valur Sigurðsson kom inn á í liði Rhein-Neckar Löwenen á lokamínútunum en hann er að koma til baka eftir erfið hnémeiðsli.

Þetta var þriðji og síðasti leikurinn í þríleik liða þeirra Alfreðs Gíslasonar og Guðmundar Guðmundssonar á aðeins ellefu dögum. Fyrstu tveir leikirnir voru í Meistaradeildinni en leikurinn í gær var í þýsku úrvalsdeildinni. Kiel vann fyrsta leikinn 30-27 eftir að hafa náð mest níu marka forystu en liðin skildu síðan jöfn 30-30 í síðasta leik þar sem Kiel stal stiginu með því að skora þrjú síðustu mörkin.

Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Rhein-Neckar Löwen var með frumkvæðið stærsta hluta leiksins, var með eins marks forskot í hálfleik, 15-14, og náði mest sex marka forskoti í seinni hálfeik. Sigur liðsins var aldrei í mikill hættu í seinni hálfeiknum.

Kiel tapaði þarna mikilvægum stigum í toppbaráttunni en Rhein-Neckar Löwen náði að enda tveggja taphrinu sína í deildinni með glæsilegum sigri. Kiel er nú fjórum stigum á eftir toppliði HSV Hamburg en Rhein-Neckar Löwen er síðan einu stigi á eftir Kiel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×