Viðskipti innlent

Kauphöllin: Skoða verður uppgjör bankanna fyrrihluta 2008

Sigríður Mogensen skrifar
Forstjóri Kauphallarinnar segir að skoða verði hvort hálfsársuppgjör bankanna 2008 hafi verið rétt og reikningarnir eðlilega sett fram. Einnig þurfi að kanna í þaula hvort yfirlýsingar bankastjóranna nokkrum mánuðum fyrir hrun um gæði eignasafna og sterka lausafjárstöðu standist skoðun.

Fyrrverandi stjórnarformaður hollenska Fjármálaeftirlisins segir að kollegar hans á Íslandi hafi logið til um ástand íslenska bankakerfisins misserin fyrir hrun.

Fjármálaeftirlitið íslenska byggði upplýsingagjöf sína til erlendra aðila um stöðu bankanna meðal annars á hálfsársuppgjörum bankanna 2008. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir þau mikið umhugsunarefni.

Samkvæmt hálfsáruppgjörum 2008 hafi staða bankanna verið sterk, eigið fé á bilinu átta til níu hundruð milljarðar króna. Nokkrum mánuðum síðar var eigið fé áætlað mínus 6 þúsund milljarðar. Því sé um að ræða 7 þúsund milljarða lækkun á nokkrum mánuðum.

„Þetta hefur valdið okkur töluvert miklum vangaveltum," segir Þórður. „Við teljum að málið sé tvíþætt, annars vegar reikningarnir sjálfir, hvort þeir voru einfaldlega réttir og eðlilega settir fram og síðan hitt hvernig stjórnendur bankanna túlkuðu stöðuna og sérstaklega með tilliti til tveggja atriða, gæði eignasafnsins og hins vegar um lausafjárstöðuna."

Forstjórar bankanna hafi lofað gæði eigna og sagt lausafjárstöðuna sterka. Þórður segir mikilvægt að þessi atriði verði skoðuð í þaula og segist treysta því að það verði gert.

Búast má við að fjallað sé um þessi mál í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en nefndin hefur það lögbundna hlutverk að fjalla um aðdraganda og orsakir bankahrunsins.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×