Viðskipti innlent

Inntak auglýsinga American Express stendur óhaggað

Kreditkort, umboðsaðili American Express, stendur fyllilega við öll efnisatriði tilteknar auglýsingar sem Valitor, umboðsaðili Visa, hefur kvartað yfir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kreditkorti.

Neytendastofa hefur bannað birtingu auglýsinga American Express þar sem borin er saman vildarpunktasöfnun korthafa American Express og VISA. Neytendastofa taldi auglýsinguna brjóta gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þar sem gefið er í skyn að vildarpunktasöfnun með VISA kortum taki óeðlilega langan tíma borið saman við American Express.

„Auglýsingunum var ætlað að varpa ljósi á þann mun sem er á söfnun vildarpunkta á Visa-kortum annars vegar og kortum American Express hins vegar. Það er vissulega vandasamt að koma flóknum skilaboðum um fríðindasöfnun mismunandi kreditkorta á framfæri í stuttum auglýsingum. Ljóst er að skýringarnar hefðu mátt vera nákvæmari í þessum tilteknu auglýsingum. Birtingu þessara auglýsinga hefur nú verið hætt og Kreditkort mun gæta þess framvegis að taka tillit til þessara sjónarmiða," segir í tilkynningunni.

Þar segir auk þess að í umhverfi eins og því sem ríki nú á kortamarkaðnum séu úrskurðir Neytendastofu ákaflega mikilvægir til að skýra mörkin í samkeppni. Ekki síst fyrir nýja aðila eins og American Express sem hafai minna svigrúm til auglýsingabirtinga en þeir kortaútgefendur sem fyrir séu á markaðnum.

Þá telur Kreditkort rétt að fram komið að Neytendastofa hafi einungis tekið tvö af fimm umkvörtunarefnum Valitors til greina varðandi áðurnefndar samanburðarauglýsingar. Hinum þremur hafi Neytendastofa hafnað. Kreditkortum hafi meðal annars verið fyllilega heimilt að bera saman punktasöfnun á kortum í auglýsingum sínum og einnig hafi fyrirtækinu verið heimilit að nota vörumerki Visa í þessum samanburði.

„Eftir stendur að söfnun Vildarpunkta á American Express kortum er hraðari en á nokkru öðru kreditkorti á Íslandi, þ.m.t. á kortum Visa. Þetta má sjá svart á hvítu ef heimasíður þessara tveggja kortafyrirtækja eru bornar saman. Kreditkort hvetur neytendur til að gera ávallt samanburð og fá aðstoð starfsfólks við að sjá hversu miklum fríðindum kortavelta þeirra skilar á ólíkum kortum."




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×