Viðskipti innlent

Bakkabræður halda hlut sínum til 2012

Eignarhaldsfélag Ágústs og Lýðs Guðmundssona mun halda áfram utan um 39,6 prósenta hlut í Bakkavör a.m.k til ársins 2012 vegna sérstakra ákvæða sem bræðurnir settu inn í lánasamninga félagsins eftir bankahrunið. Hins vegar mun allur hagnaður af hlut bræðranna fara til Exista, kröfuhöfum þess félags til hagsbóta.

Í október 2008 eftir bankahrunið seldu bræðurnir 39,6 prósenta hlut Exista í Bakkavör til félagsins ELL 182 ehf., sem er í þeirra eigu og heitir B Food Invest í dag. Félag bræðranna keypti hlutinn á 8,4 milljarða króna með láni frá Exista á mjög góðum kjörum.

Í krafti yfirráða sinna í Bakkavör létu bræðurnir síðan setja sérstök ákvæði í lánasamninga Bakkavarar í Lundúnum sem gera það að verkum að lánveitendur geta gjaldfellt lán til fyrirtækisins ef það verður breyting á eignarhaldi eða yfirstjórn þess. Kröfuhafar Bakkavarar sitja því uppi með bræðurnar hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Um er að ræða svokölluð „change of control" ákvæði í samningum vegna yfir hundruð milljarða króna sambankaláns Bakkavarar í Lundúnum.

Hluti af endurskipulagningu Bakkavarar gerir ráð fyrir að eignarhlutur bræðranna í Bakkavör renni aftur inn í Exista en drög að samkomulagi liggja fyrir sem gera ráð fyrir að félagið verði yfirtekið af kröfuhöfum. Það sem hefur torveldað endurskipulagninguna eru ákvæðin sem sett voru inn í lánasamninga Bakkavarar í Lundúnum, því það hefði mjög slæmar afleiðingar ef lán til félagsins yrðu gjaldfelld.

Bræðurnir verða því áfram eigendur 39,6 prósenta hlutafjár í Bakkavör og munu stýra félaginu áfram. Hins vegar mun hagnaður af eignarhlut þeirra, ef hann verður einhver, renna til kröfuhafa Exista. Og hafa bræðurnir skuldbundið sig til að taka ekki fjármagn út úr B Food Invest. Árið 2012 verður síðan hægt að endurfjármagna lán Bakkavarar í Lundúnum og stendur til að fjarlægja gjaldfelllingarákvæðin þá. Eftir það er gert ráð fyrir að hlutur bræðranna í Bakkavör renni aftur inn í Exista, sem verður síðan yfirtekið af kröfuhöfum, sem eru að stærstum hluta hinir sömu og kröfuhafar Bakkavarar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×