Viðskipti innlent

Nýherji: Heildartekjur svipaðar og í fyrra en heildartap 130 milljónir

Þórður Sverrison forstjóri: Stórir samningar Applicon A/S bættu rekstrarafkomu erlendu starfseminnar í lok ársfjórðungsins.
Þórður Sverrison forstjóri: Stórir samningar Applicon A/S bættu rekstrarafkomu erlendu starfseminnar í lok ársfjórðungsins.

Heildartekjur Nýherja samstæðunnar námu 3.509 milljónum króna og eru svipaðar og á fyrsta ársfjórðungi 2009 að því er fram kemur í uppgjöri félagsins sem birt var í dag. EBITDA í ársfjórðungnum nam 35 milljónum króna, en heildartap er 130 milljónir króna. Jákvæð EBITDA er af innlendum rekstri, en erlend starfsemi er í járnum að því er fram kemur í tilkynningu.

„Applicon A/S gerði mikilvægan þriggja ára samning að fjárhæð 1,8 milljarða króna, sem tryggir góða afkomu af erlendri starfsemi á árinu. Tap var á rekstri Applicon að upphæð 32 mkr í fyrsta ársfjórðungi, en útlit fyrir ágætan hagnað út árið," segir einnig auk þess sem fram kemur að fjárhagsstaða félagsins verður styrkt á næstunni m.a. með hlutafjáraukningu og sölu eigna.

„Rekstrartekjur af innlendri starfsemi Nýherja jukust um 3% frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra og EBITDA batnaði um nær 65 milljónir. Vörusala hefur vaxið um nær fjórðung frá sama ársfjórðungi í fyrra ári og jafnvægi er að nást í hugbúnaðarráðgjöf og þjónustu, segir Þórður Sverrisson, forstjóri.

Samningar Applicon bættu rekstrarafkomuna

„Stórir samningar Applicon A/S bættu rekstrarafkomu erlendu starfseminnar í lok ársfjórðungsins. Halli af rekstri þess félags síðustu tvo ársfjórðunga er samtals 125 mkr, en samningarnir treysta góða afkomu næstu misseri," segir Þórður einnig.

Að hans sögn eru horfur um rekstrarafkomu félagsins nú jákvæðar, í kjölfar umfangsmikilla aðgerða sem ráðist hefur verið í hérlendis til að lækka kostnað, laga rekstur að markaðsaðstæðum og ná mikilvægum samningum hérlendis og erlendis. „Meginverkefni Nýherja næstu mánuðina er að tryggja fjárhagslega stöðu félagsins og liggja nú fyrir tillögur stjórnar til viðskiptabanka félagsins um ráðstafanir til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu þess með m.a. hlutafjáraukningu og sölu eigna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×