Viðskipti innlent

Verstu viðskipti ársins: Björgun Sjóvár

Heiðar Már Guðjónsson
Heiðar Már Guðjónsson

Þegar skilanefnd Glitnis tók yfir rekstur trygginga­félagsins Sjóvár kom í ljós að Milestone-bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir höfðu gengið þar svo illa um að félagið uppfyllti ekki lengur skilyrði um gjaldþol. Bóta­sjóðurinn var tómur, í stað fjármuna voru tryggingar bundnar í ótryggum fasteignum í fjarlægum löndum. Félagið var í raun gjaldþrota og vantaði milljarða til að koma rekstrinum á réttan kjöl.

Ríkið kom til hjálpar, lagði tryggingafélaginu til tæpa tólf milljarða króna og eignaðist við það um 73 prósenta hlut, sem stýrt er af Eignasafni Seðlabankans. Aðrir hluthafar eru skilanefnd Glitnis og Íslandsbanki, sem að nær öllu leyti er í eigu skilanefndarinnar.

Sjóvá var sett í opið söluferli í janúar. Þegar tilboð voru opnuð í mars reyndist hæsta boð, upp á um ellefu milljarða króna, frá hópi fjárfesta undir forystu Heiðars Más Guðjónssonar, athafnamanns búsetts í Sviss. Aðrir í hópnum voru fjárfestirinn Ársæll Valfells, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Guðmundur og Berglind Jónsbörn, löngum kennd við útgerðarfyrirtækið Sjólaskip í Hafnarfirði, auk lífeyrissjóða og fagfjárfesta.

Um sumarið höfðu samningar náðst að mestu, búið var að semja um greiðslur og tilheyrandi. Beðið var undirritunar seðlabankastjóra, sem innsigla átti við­skiptin. Sá lét bíða eftir sér.

Um haustið tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að formleg rannsókn væri hafin á ríkisbjörgun Sjóvár. Í ofanálag tók DV að fjalla um fortíð Heiðars Más, sem verið hafði framkvæmdastjóri Novators, fjárfestingar­félags í eigu Björgólfs Thors Björg­ólfssonar. Var honum brigslað um aðför gegn krónunni sem hlut átti að gengishruni hennar. Heiðar andmælti, sagðist þvert á móti hafa varað ráðamenn hér við hættunni fram undan löngu áður en halla hefði tekið undan fæti. Þá var sömuleiðis rætt um að Már Guðmundsson seðlabankastjóri væri á móti því að Heiðar kæmi að kaupunum.

Á endanum gáfust fjárfestarnir upp í nóvember og hættu við kaupin. Ekki er vitað til þess að söluferli Sjóvár verði endurtekið í allra nánustu framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×