Viðskipti innlent

Fengu margfalt hærra tilboð en í fyrra

Vífilfell er einn þriggja íslenskra eigenda hollenska drykkjavöruframleiðandans Refresco.
Vífilfell er einn þriggja íslenskra eigenda hollenska drykkjavöruframleiðandans Refresco.
Erlendir fjölmiðlar segja kaup breska einkaframtakssjóðsins 3i Group á fimmtungshlut í hollenska drykkjavöruframleiðandanum Refresco fyrir um 84 milljónir evra, fjórtán milljarða íslenskra króna, í fyrradag með umfangsmestu fjárfestingum eftir kreppuna.

Þetta er í annað skiptið sem 3i Group kemur að Refresco. Það átti félagið um þriggja ára skeið en seldi til FL Group (nú Stoða), Kaupþings og Vífilfells árið 2006. Upp úr því tók Refresco yfir fjölda drykkjarframleiðenda í í Evrópu og er velta fyrirtækisins nú tvöfalt meiri en á síðustu þremur árum.

Refresco var sett í söluferli árið 2008 en kreppan setti strik í þær fyrirætlanir og tóku íslensku fjárfestarnir ákvörðun vorið 2009 að selja ekki. Verðið sem fékkst fyrir hlutinn nú mun vera margfalt hærra en boðið var í hlutinn í fyrra.

3i Group greiðir kaupverðið úr nýjum sjóði félagsins, sem í eru 1,2 milljarðar evra, jafnvirði 213 milljarða króna. Þriðjungur fjárins í sjóðnum kemur frá fjárfestum en afgangurinn er samsafn eldri sjóða. Breska viðskiptablaðið Financial Times segir afrek að loka sjóðnum við núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum.

Eftir viðskiptin munu Stoðir, Kaupþing og Vífilfell eiga 62 prósenta hlut í Refresco.- jab





Fleiri fréttir

Sjá meira


×