Viðskipti innlent

Óska eftir tilnefningum í stjórnir sparisjóða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Elín Jónsdóttir er forstjóri Bankasýslunnar.
Elín Jónsdóttir er forstjóri Bankasýslunnar.
Bankasýsla ríkisins óskar eftir tilnefningum í stjórnir sparisjóða sem fyrirséð er að verði á forræði Bankasýslunnar. Nú er sérstaklega óskað eftir tilnefningum í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar. Í tilkynningu frá Bankasýslunni kemur fram að þriggja manna valnefnd, sem skipuð er af stjórn Bankasýslu ríkisins, undirbúi tilnefningar aðila fyrir hönd ríkisins í stjórnir fyrirtækja sem séu á forræði stofnunarinnar.

„Bankasýsla ríkisins leggur áherslu á vandað ferli við val á þeim einstaklingum sem valdir eru til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Við óskuðum á sínum tíma eftir tilnefningum frá almenningi vegna skipunar í stjórnir Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka og voru viðbrögðin vonum framar. Bankasýslunni barst fjöldi ferilskráa og gat því valið úr stórum hópi hæfileikafólks þegar tilnefnt var í stjórnir bankanna," segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, í tilkynningu.

Elín segir að Sparisjóðirnir gegni veigamiklu hlutverki á þeim svæðum sem starfsemi þeirra nær til og miklu skipti að vel takist til við val á stjórnarmönnum í þeim sparisjóðum sem verði á forræði Bankasýslunnar. Hún segir að mikið sé lagt upp úr jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×