Viðskipti innlent

Kennitöluflakk á öllum stigum atvinnulífsins, líka í kjötvinnslu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kjötbankinn. Eigendurnir færðu nafnið og vörumerkið undir aðra kennitölu rétt fyrir gjaldþrotið. Skiptastjórinn skoðar hvort hægt sé að endurheimta eignirnar.
Kjötbankinn. Eigendurnir færðu nafnið og vörumerkið undir aðra kennitölu rétt fyrir gjaldþrotið. Skiptastjórinn skoðar hvort hægt sé að endurheimta eignirnar.

Eigendur Kjötbankans, sem nú er gjaldþrota, skiptu um nafn á félaginu og fluttu vörumerki, heimasíðu og nafn félagsins í nýja kennitölu fyrir gjaldþrot. Fimmtán starfsmenn hins gjaldþrota félags hafa ekki fengið greidd laun fyrir júlí og óvíst hvort þeir fái launakröfur sínar greiddar.

Bent hefur verið á að lagaumgjörð um starfsemi eignarhaldsfélaga hafi beinlínis hvatt til kennitöluflakks og lánveitinga án persónulegra ábyrgða. Viðskiptahættir, sem eru framandi fyrir mörgu venjulegu fólki, virðast ekki aðeins hafa þrifist í bankakerfinu og hjá fjárfestingarfélögum heldur einnig á nánast öllum stigum íslensks atvinnulífs.

Nú er fyrirtækið Kjötbankinn, sem hefur starfað um árabil í kjötiðnaði og matvælaframleiðslu, gjaldþrota. Einu eignir fyrirtækisins eru ýmis kjötiðnaðartæki og lausafjármunir, að sögn skiptastjóra þrotabúsins. Rétt áður en fyrirtækið fór í þrot skipti það hins vegar um nafn.

Fyrirtækið starfaði undir heitinu Kjötbankinn, en stuttu fyrir gjaldþrot þess skipti fyrirtækið um nafn og heitir í dag F-576 ehf. Eigendur Kjötbankans breyttu hins vegar öðru félagi í sinni eigu, Jurtaríki ehf. í Kjötbankann ehf. og færðu þangað bæði nafn og vörumerki Kjötbankans. Eigandi Kjötbankans, Haukur Hjaltason, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í dag. Hann sagðist eiga von á því að ágreiningur myndi skapast um eignarhald á vörumerkinu.

Guðrún Björg Birgisdóttir, skiptastjóri þrotabúsins, sagði að fimmtán starfsmenn hafi unnið hjá fyrirtækinu undir lokin en þeir hafa ekki fengið greidd laun fyrir júlí og myndu þurfa að krefja þrotabúið um laun. Guðrún sagði verðmæti eigna óljóst og sagðist líta svo á að bæði vörumerkið og nafnið væru eignir þrotabúsins og sagðist ætla að skoða hvort ekki væri hægt að endurheimta þær.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×