Viðskipti innlent

Sólarkísilverksmiðja enn á teikniborðinu

Tímabundnar aðgerðir kanadíska fyrirtækisins Timminco setja ekki skarð í áætlanir um byggingu sólarkísilverksmiðju í Ölfusinu sem á að ræsa eftir fimm ár, segja forsvarsmenn verkefnisins.
Tímabundnar aðgerðir kanadíska fyrirtækisins Timminco setja ekki skarð í áætlanir um byggingu sólarkísilverksmiðju í Ölfusinu sem á að ræsa eftir fimm ár, segja forsvarsmenn verkefnisins.

Kanadíska fyrirtækið Timminco Limited hefur hætt framleiðslu á sólarkísilflögum tímabundið og mun blása lífi í hana þegar eftirspurn eykst.

„Við eigum miklar birgðir," segir John Fenger, framkvæmdastjóri Timminco, í samtali við Fréttablaðið. Tíminn verði notaður til að auka gæði afurða fyrirtækisins. Aðgerðin muni ekki setja skarð í áætlanir enda um aðeins hluta af heildarumfangi Timminco að ræða, að hans sögn.

Timminco vinnur með nýsköpunarfyrirtækinu Stokki Energy að byggingu kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju, sem áformað er að reisa rétt vestan við Þorlákshöfn í Ölfusi. Fyrir mánuði undirrituðu þau samning við Orkuveitu Reykjavíkur um orkusölu til verksmiðjunnar til tuttugu ára. Öll orkan á að koma frá Hverahlíðarvirkjun.

Framkvæmdir við verksmiðjuna eru ekki komnar langt á veg en lóð hefur verið tekin frá fyrir hana í Ölfusi, að sögn Ólafs Áka Ragnarssonar bæjarstjóra. Sveitarfélagið hefur ekki lagt fé í verkefnið. Fundað verður um framkvæmdir henni tengdri á mánudag. Hann bætir við að engar breytingar hafi verið gerðar á áætlunum. Undir það tekur Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri Stokks Energy.

Samkvæmt uppgjöri Timminco sem birt var í vikunni tapaði fyrirtækið 69,4 milljónum kanadískra dala, jafnvirði rúmra 8,7 milljarða íslenskra króna, á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Verð hlutabréfa í fyrirtækinu hefur lækkað mikið.

Fréttablaðið sagði frá því fyrir mánuði að neikvæð þróun fyrirtækisins gæti haft áhrif á rekstrarhæfi þess. Erlendir fjármálasérfræðingar hafa verið á sama máli í vikunni. Fyrirtækið lokaði einu verksmiðju sinni í maí í fyrra og sagði upp hluta starfsfólks. Þar eru þrír ofnar til kísilmálmframleiðslu sem geta framleitt 45-50 þúsund tonn af kísilmálmi á ári. Framleiðsla hófst þar að nýju í fyrrahaust.

John, sem tók við starfi framkvæmdastjóra í byrjun síðasta árs, segir tapið í fyrra tilkomið vegna nauðsynlegra afskrifta, svo sem á fastafjármunum og birgðum. „Að öðru leyti erum við á lygnum sjó," segir hann. jonab@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×