Viðskipti innlent

Darling spurði hvert hann ætti að senda Icesave-reikninginn

Alistair Darling spurði hvert hann ætti að senda Icesave-reikninginn.
Alistair Darling spurði hvert hann ætti að senda Icesave-reikninginn.

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, sagði við Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskitparáðherra og Jón Sigurðssonar fyrrverandi stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, að Bretar myndu ábyrgjast innistæður Icesave í Bretlandi að fullu.

Hann spurði síðan íslenska föruneytið hvert hann ætti að senda reikninginn. Þessi fundur átti sérs tað í London 2. september 2008, mánuði fyrir hrun. Þá segir í skýrslunni að ríkisstjórnin hafi ekki reynt að koma Icesave í skjól eftir þennan fund.

Á fundinum var meðal annars Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis og Áslaug Árnadóttir, formaður stjórnar TIF.

Jón Sigurðsson reifaði sjónarmið íslenskra stjórnvalda á fundinum. En haft er eftir Jónínu S. Lárusdóttur að Darling hafi sagst gera ráð fyrir því að bresk stjórnvöld myndu ábyrgjast innstæður að fullu og spurt hvert síðan ætti að senda reikninginn.

Clive Maxwell, starfsmaður breska fjármálaráðuneytisins, lýsti því skömmu síðar á fundi með Sverri Hauki Gunnlaugssyni, sendiherra Íslands í London, að Darling hefði orðið fyrir vonbrigðum með þennan fund sinn með íslenskum embættismönnum.

Fram kom í máli Maxwell að Darling hefði þótt sem Íslendingarnir áttuðu sig ekki á alvarleika málsins.

Í þessu samhengi tekur rannsóknarnefnd Alþingis fram að ekki verður séð að fundur viðskiptaráðherra og stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins með fjármálaráðherra Bretlands hafi með neinu móti dregið úr áhyggjum innan breska stjórnkerfisins af málefnum Landsbankans eða liðkað fyrir lausn vandans.

Þá segir í skýrslunni að íslensku fundarmönnunum gat ekki dulist að Darling taldi verulega hættu á að Landsbankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart innstæðueigendum í Bretlandi.

Þá segir einnig orðrétt í skýrslunni:

„Loks verður ekki séð að á næstu vikum eftir fundinn hafi viðskiptaráðherra eða aðrir ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands kannað hvaða leiðir kynnu að vera færar til að greiða fyrir flutningi Icesave reikninganna yfir í dótturfélag."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×