Viðskipti innlent

Býst við 10-15% hækkun á flugfargjöldum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Björgólfur Jóhannsson býst við nokkurri hækkun á fargjöldum.
Björgólfur Jóhannsson býst við nokkurri hækkun á fargjöldum.
Forstjóri Icelandair segir að flugfargjöld geti hækkað um 10 til 15 prósent á næsta ári vegna aukinnar gjaldtöku ríkisins. Skattar og gjöld á fyrirtækið hækki um einn milljarð króna á næsta ári.

Meðal þeirra skatta sem koma til með að hækka á næsta ári eru farþegaskattar, gistináttagjald, flugvallarskattar og fleiri. Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair Group, býst við að hækkanirnar nemi ríflega milljarði fyrir fyrirtækið. Þær leggjast á þrjú félög innan Icelandair Group, það er að segja Icelandair, Icelandair Hotels og Flugfélag Íslands, en útreikningarnir byggja á farþegafjölda og seldum gistinóttum þessara fyrirtækja.

Björgólfur segir að þessar hækkanir verði innheimtar að verulegu leyti hjá viðskiptavinum fyrirtækisins. „Ég ætla þá að þetta muni lenda allt í okkar gjöldum - og ef við horfum á innanlandsflugið þá getur þetta legið í 10-15% hækkun," segir Björgólfur. Hann býst við að prósentuhækkanirnar verði ekki eins miklar í millilandaflugi, en þó verði einhverjar hækkanir.

Björgólfur segist hræddur um að skattahækkanirnar skili ekki auknum tekjum í ríkissjóð, þar sem samdráttur í eftirspurn geti vegið þyngra en hækkun skattanna. Hann vonar þó að hún hafi ekki áhrif á ferðamannastrauminn.

„Það var búið að fara mjög myndarlega í átak sem var kallað Inspired by Iceland, þar sem ríkisstjórnin kom mjög myndarlega að málum," segir Björgólfur. Því sé undarlegt að þessi stefna sé tekin í beinu framhaldi og ögra þeirri vinnu sem var sett í þetta átak.

Björgólfur segist þó átta sig á að staða hins opinbera sé erfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×