Viðskipti innlent

Seðlabankinn samdi vegna fimm sparisjóða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Seðlabankinn hefur samið um fimm sparisjóða.
Seðlabankinn hefur samið um fimm sparisjóða.
Seðlabanki Íslands hefur lokið samningum um skuldir fimm sparisjóða sem ekki uppfylltu skilyrði um lágmark eigin fjár í kjölfar bankahrunsins. Þeir sparisjóðir sem um ræðir eru Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis. Auk þess hafa Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Höfðhverfinga greitt skuldir sínar við Seðlabankann.

Í neyðarlögum er að finna heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að leggja sparisjóðum til stofnfé sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé þeirra, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankanum. Bankinn segir að í upphafi hafi endurskipulagning skulda sparisjóða byggt á grunni laganna en þegar á leið reyndist staða sparisjóðanna verri en áður var talið og komið hafi í ljós að framlag samkvæmt neyðarlögunum myndi ekki duga til að endurreisa þá fjárhagslega. Sparisjóðirnir þurftu því á aðkomu kröfuhafa að halda til að fjárhagsleg endurskipulagning þeirra væri möguleg.

Seðlabanki Íslands varð helsti kröfuhafi sparisjóðanna við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009. Þá fékk Seðlabankinn kröfurnar sem endurgjald þegar honum var gert að taka yfir innlán sparisjóða hjá Sparisjóðabankanum við fall hans. Í samráði við fjármálaráðuneytið var sparisjóðum boðið að semja um uppgjör á skuldum sínum við Seðlabankann að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í kjölfarið hófu sparisjóðirnir að vinna að tillögum um fjárhagslega endurskipulagningu og voru þær kynntar Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Í kjölfarið samþykkti Fjármálaeftirlitið að sparisjóðirnir gengju til endanlegra samningaviðræðna við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu, enda væri kröfum eftirlitsins fullnægt. Þá samþykkti ESA endurskipulagningaráform ríkisins og Seðlabankans fyrir fimm sparisjóði í júní 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×