Viðskipti innlent

Talsverður verðbólguþrýstingur er framundan

Talverður verðbólguþrýstingur er framundan á síðasta fjórðungi ársins. Hækkun á heimsmarkaðsverði á kornvörum og öðrum hrávörum sem mikilvægar eru í matvælaiðnaði munu koma til með að hafa áhrif á matvælaverð á næstunni.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um verðbólgumælingu Hagstofunnar frá því í morgun. Sem kunnugt er af fréttum lækkaði ársverðbólgan niður í 3,7% og hefur ekki verið minni síðan í ágúst 2007.

Í Morgunkorninu segir að verðhækkanir á brauði og öðrum kornvörum hafa þegar verið boðaðar og munu taka gildi strax um næstu mánaðarmót. Fyrir liggur að gjaldskrár veitufyrirtækja á hita og rafmagni munu hækka á næstunni og vega nokkuð til hækkunar á vísitölu neysluverðs, en þessar gjaldskrárhækkanir gætu vegið til 0,3-0,4% hækkunar á vísitölunni í nóvember.

„Sýn okkar á verðbólguþróun þegar fram í sækir er hinsvegar enn sem fyrr á þann veg að verðbólgan muni hjaðna á næstu mánuðum en miklir hækkunarmánuðir eru nú að detta út úr 12 mánaða taktinum. Verðbólgumarkmið Seðlabankans sem hljóðar upp á 2,5% verðbólgu mun því sennilega nást snemma á næsta ári að því gefnu að krónan haldist stöðug eða haldi áfram að styrkjast," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×