Innlent

Ráðgjafarstofa heimilanna: Barnafólk á fertugsaldri verst statt

Flestir sem sækja um aðstoð búa á höfuðborgarsvæðinu.
Flestir sem sækja um aðstoð búa á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2009 var það umfangsmesta í sögu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Alls bárust stofunni 1.623 umsóknir og fjölgaði umsóknum um rúmlega 750 frá fyrra ári eða um tæplega helming samkvæmt tilkynningu frá Ráðgjafastofunni.

Í heild bárust 1.184 umsóknir frá fólki í leit að ráðgjöf vegna greiðsluerfiðleika og 439 umsóknir um aðstoð við gerð beiðna um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fyrir dómi. Langflestir sem sóttu ráðgjöf eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða 72% en 28% búa á landsbyggðinni.

Meirihluti umsækjenda er barnafólk á fertugsaldri sem er á vinnumarkaði og býr í eigin húsnæði. Ástæður greiðsluerfiðleikanna stafa oftast af lækkun tekna en margir telja veikindi, offjárfestingu og afleiðingar bankahrunsins ástæðuna. Um 10% umsækjenda nefna vankunnáttu í fjármálum sem ástæðu greiðsluerfiðleika sinna.

Heildarskuld meðalumsækjandans á árinu 2009 nemur rúmlega 31 milljón kr. Það er hækkun skulda um 120% frá fyrra ári. Vanskil aukast mikið milli ára eða um 99%. Bílalánin vega þar mest en aukning vanskila vegna þeirra nemur um 481% frá árinu 2008 til 2009.

Þann 1. ágúst nk. verður Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna lögð niður og í hennar stað verður stofnað Embætti umboðsmanns skuldara. Hann mun vera skuldurum til aðstoðar. Í dag bíða um 500 mál úrlausnar hjá Ráðgjafarstofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×