Viðskipti innlent

Velta eykst: Vísbending um hagvöxt?

Hafsteinn Hauksson skrifar
Velta jókst um tæp tíu prósent fyrstu mánuði ársins frá fyrra ári.
Velta jókst um tæp tíu prósent fyrstu mánuði ársins frá fyrra ári.

Heildarvelta í atvinnulífinu eykst talsvert frá síðasta ári fyrstu fjóra mánuði ársins, og gæti verið vísbending um áframhaldandi hagvöxt. Velta í smásöluverslun eykst minna.

Tölur Hagstofunnar yfir veltu eru byggðar á virðisaukaskattskýrslum fyrirtækja. Heildarvelta í atvinnulífinu eykst um tæp tíu prósent fyrstu fjóra mánuði ársins og nam alls rúmum 814 milljörðum í ár, samanborið við tæpa 746 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Tölurnar eru á nafnvirði, svo ekki hefur verið tekið tillit til verðbólgu. Að raunvirði, það er eftir að tölurnar hafa verið verðbólguleiðréttar, er aukningin því minni, eða um 1,3 prósent ef miðað er við meðalverðbólgu á tímabilinu.

Velta gefur góðar vísbendingar um hagvöxt á tímabilinu, en aprílmánuður er sá fyrsti á öðrum ársfjórðungi. Í mars og apríl jókst veltan um tæp tíu prósent frá fyrra ári, og um fjórtán prósent frá fyrstu tveim mánuðum ársins, svo hugsanlega er það til marks um að nú verði hagvöxtur þriðja ársfjórðunginn í röð.

Veltan eykst einna mest í endurvinnslu og framleiðslu málma, eða um meira en helming, en einnig í heilbrigðis og félagsþjónustu. Á sama tíma dregst veltan í stjórnsýslu og almannatryggingum hins vegar talsvert saman, eða um tæp 20 prósent.

Velta í smásöluverslun eykst lítið eitt, eða um rúm tvö prósent. Það merkir að sé tekið mið af verðbólgu á tímabilinu hafi hún í raun dregist saman um rúm fimm prósent, þ.e. verðbólgan var meiri en veltuaukningin. Hún jókst einna mest í bóksölu og ritfangaverslun.Þá aukast viðskipti með bíla lítið eitt frá því í fyrra, en velta þeirra nemur þó aðeins rúmum þriðjungi þess sem var fyrir tveimur árum í ársbyrjun 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×