Viðskipti innlent

Bankinn verði leiðandi afl í endurreisninni

Bankinn á að vera leiðandi afl í endurreisn íslensks efnahagslífs, segir nýr bankastjóri Arion banka. Hann getur ekki tjáð sig um hvernig hann hyggst taka á málefnum stærstu skuldara bankans, hann þurfi að kynna sér þau frá sjónarhóli bankans.

Höskuldur Ólafsson, viðskiptafræðingur og forstjóri Valitor, hefur verið ráðinn bankastjóri Arion banka og tekur hann við af Finni Sveinbjörnssyni þann 1. júní næstkomandi. Höskuldur var valinn úr hópi 40 umsækjenda.

„Bankinn á að vera leiðandi afl í endurreisn á íslensku efnahagslífi. Hann á að vera fyrsti valkostur fyrir einstaklinga og fyrirtæki varðandi bankastarfsemi," segir Höskuldur.

Afgreiðsla Arion banka á málefnum verslunarkeðjunnar Haga og Ólafs Ólafssonar og Samskipa hefur verið umdeild að undanförnu.

„Nú held ég að ég þurfi að fara inn í bankann og kynna mér málin og vil ekki tjá mig heildstætt eins og þú spyrð. Stöðu minnar vegna er ekki rétt að ég tjái mig um mín persónulegu viðhorf á þessu stigi," segir Höskuldur aðspurður hvernig hann ætli að taka á þessum stóru málum.

En hver er afstaða Höskuldar til launa- og hvatakerfa, líkt og þeirra sem tíðkuðust í gömlu bönkunum? „Ég hef ekkert á móti hvatakerfum og held að þau geti verið mjög góð en ég held að menn þurfi að fara varlega í því og bankinn þurfti að fara varlega í því og læra af reynslunni og draga lærdóm af því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×