Innlent

Flestir nýnemar komast í draumaskólann

Um 95% umsækjenda hafa nú fengið skólavist í þeim skólum sem þeir sóttu um í fyrsta eða öðru vali. Þar af fá um 82% skólavist í skóla er þeir sóttu um sem fyrsta val.
Um 95% umsækjenda hafa nú fengið skólavist í þeim skólum sem þeir sóttu um í fyrsta eða öðru vali. Þar af fá um 82% skólavist í skóla er þeir sóttu um sem fyrsta val. Mynd/Anton Brink

Öllum nemendum úr 10. bekk sem sóttu um að hefja nám í framhaldsskóla í haust hefur verið boðin skólavist. Betur hefur gengið að útvega öllum nýnemum skólavist en undanfarin ár vegna breytts fyrirkomulags á innritun, að því er fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

Innritun nýnema lauk 11. júní síðastliðinn og bárust alls umsóknir frá 4.356 nemendum sem er um 96,5% þeirra sem skráðir voru í 10. bekk haustið 2009 og hefur aldrei áður verið svo hátt. Um 95% umsækjenda hafa nú fengið skólavist í þeim skólum sem þeir sóttu um í fyrsta eða öðru vali. Þar af fá um 82% skólavist í skóla er þeir sóttu um sem fyrsta val. Umsækjendur sem ekki fengu inni í þeim skólum er þeir völdu í fyrsta eða öðru vali hafa fengið tilboð frá ráðuneytinu um skólavist í öðrum skólum.

Framhaldsskólarnir fengu jafnframt um 4.100 umsóknir frá eldri umsækjendum sem eru fæddir árið 1993 og fyrr. Í tilkynningunni segir að það séu heldur færri umsóknir en í fyrra.

Við afgreiðslu umsókna eldri nemenda njóta ólögráða umsækjendur forgangs og eiga rétt á skólavist samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Þeir nemendur yngri en 18 ára sem voru við nám á vorönninni eiga rétt á áframhaldandi skólavist í sínum skóla hafi þeir haldið skólareglur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×