Viðskipti innlent

Landsvirkjun þarf að greiða 32 milljarða í ár og á næsta ári

Samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg þarf Landsvirkjun að standa skil á ríflega 250 milljónum dollara eða tæpum 32 milljörðum kr. á þessu og næsta ári í afborganir af lánum og skuldabréfum, og að auki greiða vexti.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um lækkun Standard & Poors á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar. Lækkunin þýðir að lánshæfið fer úr fjárfestingarflokki og niður í áhættuflokk.

Á vef Landsvirkjunar kemur fram að lækkun lánshæfiseinkunnarinnar hefur ekki áhrif á vaxtakjör eldri lána fyrirtækisins og engin lán gjaldfalla vegna þessa. Hins vegar má vera ljóst að á brattann verður að sækja fyrir Landsvirkjun að sækja sér nýja fjármögnun næsta kastið, a.m.k. út fyrir landsteinana. Fyrirtækið virðist þó hafa talsvert borð fyrir báru hvað þetta varðar.

Þann 19. júní síðastliðinn gerði Landsvirkjun og íslenska ríkið með sér viðbúnaðarsamning á þann veg að skorti fyrirtækið fjármagn til að mæta greiðslum vegna lána mun Seðlabankinn leggja til gjaldeyri og Landsvirkjun mun á móti afhenda bankanum krónur eða skuldabréf. Samningurinn er í gildi næstu tvö ár og hefur Landsvirkjun aðgang að 300 milljónum dollara með þessum hætti.

Til viðbótar kemur fram á vef Landsvirkjunar að lausafé fyrirtækisins sé um þessar mundir 90 milljónir dollara og að auki hafi fyrirtækið aðgang að erlendu veltiláni sem fjórtán erlendar fjármálastofnanir standa að.

Landsvirkjun segir ofangreindan aðgang að lausafé, ásamt fé frá rekstri, duga til greiðslu vaxta og afborgana út árið 2010 án þess að gripið sé til viðbúnaðarsamningsins. Á hinn bóginn þarf einnig að fjármagna allháar upphæðir næstu ár þar á eftir og gæti þá reynt á lánshæfi Landsvirkjunar á alþjóðlegum mörkuðum.

Ljóst er einnig að ef ráðast á í verulegar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins í tengslum við frekari uppbyggingu á orkufrekum iðnaði næsta kastið eykst fjárþörfin að sama skapi og gæti fyrirtækið þurft að leita fjármögnunar innanlands í auknum mæli ef sú verður raunin, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×