Viðskipti innlent

Teymi fagnar málalyktum

Fjarskiptafyrirtækið Teymi fagnar málalyktum í málefnum fyrirtæksins og Tals en Samkeppniseftirlitið hefur sektað Teymi um 70 milljónir króna fyrir brot á samkeppnislögum.

Teymi og dótturfélag fyrirtækisins, Vodafone, hafa gengist við að hafa brotið gegn 10. grein samkeppnislega þegar Hive og Sko voru sameinuð undir merkjum Tals. Teymi og Vodafone fallast á að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 70 milljónir króna vegna þessa. Fyrirtækin fallast á að hlíta tilteknum fyrirmælum, þar á meðal að selja hlut sinn í Tali, sem ætlað er að tryggja virka samkeppni.

„Sá grunur Samkeppniseftirlitsins kom stjórnendum Teymis mjög á óvart, því samkeppni á fjarskiptamarkaðnum hefur aldrei verið meiri en eftir stofnun Tals. Allar ákvarðanir stjórnenda Teymis voru teknar í góðri trú og var ætlað að styrkja Tal og stuðla að jákvæðri afkomu þess," segir í tilkynningu Teymis.

Þar segir einnig að á undanförnum mánuðum hafi málsaðilar deilt um merkingu einstakra skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setti við sameiningu Hive og SKO á sínum tíma og ljóstsér að túlkanir á ákvæðum samkeppnislaga eru ólíkar. Eftir ítarlega skoðun hefur Teymi fallist á að undirgangast sátt við Samkeppniseftirlitið.

„Teymi fagnar því að málinu sé lokið, enda er það hagsmunamál fyrir fyrirtækið að eyða óvissu um málið sem annars hefði getað dregist verulega á langinn. Teymi mun í einu og öllu virða túlkun Samkeppniseftirlitsins á þeim ákvæðum sem deilt var um og stuðla áfram að samkeppni í íslenskum fjarskiptamarkaði."


Tengdar fréttir

Teymi sektað um 70 milljónir

Samkeppniseftirlitið hefur sektað fjarskiptafyrirtækið Teymi um 70 milljónir króna fyrir brot á samkeppnislögum sem áttu sér stað á árinu 2008. Fyrirtækinu er jafnframt gert að selja eignarhlut sinn Tali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×