Innlent

Ómar: Finnar stálu jólasveininum

Ómar Ragnarsson í gervi jólasveinsins í Vesturveri við Aðalstræti í desember 1964.
Ómar Ragnarsson í gervi jólasveinsins í Vesturveri við Aðalstræti í desember 1964.
„Við létum Finna stela jólasveininum frá okkur," segir Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður með meiru.

Ómar segir að eftir stríðið hafi íslensk börn jólasveininum á Íslandi en Íslendingar hafi hreinlega ekkert séð nema fyrirhöfn við þetta. „En við getum ennþá toppað Finnana. Þeir eru með hreindýr, sleða, frosin vötn, skóg og snjó. Við erum með þetta allt og auk þess eldfjöll, þrettán jólasveina í staðinn fyrir einn, Grýlu, Leppalúða, tröllin, álfana. Allan pakkann. Það eru ekki nema tveir staðir á Íslandi sem geta boðið þetta. Kröflusvæðið, sem er á kafi í snjó allan veturinn, og Fljótsdalsheiði, í örfárra kílómetra fjarlægð frá alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum. Með öllum þessum jólahefðum, lögum og textum, sem búið er að búa til á síðustu sjötíu árum," segir Ómar í bókinni Jólaminningar, eftir Jónas Ragnarsson, sem kom út fyrir skömmu. Ómar segir að Íslendingar séu með stórkostlega jólamenningu á Íslandi sem er hvergi annars staðar til í heiminum.

Ómar segir einnig frá því í bókinni að eftir að hann varð landsþekktur skemmtikraftur hafi hann verið tregur til að fara að skemmta sem jólasveinn. „Ég taldi að maður ætti ekki að græða á Jesúbarninu. Síðan gerðist það að Svavar Gests bað mig að gera texta við Here Comes Santa Claus. Ég gerði það og lagið hét Jólasveinninn minn," segir Ómar. Þetta var fyrir jólin 1962. Ragnar Bjarnason og Ellý Vilhjálms sungu lagið á Hótel Sögu og síðar kom það út á plötu. „Þá brotnaði stíflan og ég ákvað að fara út í þennan jólasveinaslag - sem Gáttaþefur," segir Ómar. Hann segist hafa gert fleiri jólatexta en nokkur annar Íslendingur. „Ekki undir hundrað. Oftast fyrir aðra," segir Ómar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×