Viðskipti innlent

Erlendir fjárfestar fá 67 milljarða í dag

Erlendir fjárfestar fá 67 milljarða kr. í hendurnar í dag en þá er gjalddagi á innistæðubréfum hjá Seðlabankanum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorn i sínu. Þar segir að innistæðubréf í flokki SI 09 0624 er á gjalddaga í dag en Seðlabankinn bauð út þennan flokk innistæðubréfa 25. mars á þessu ári til að koma til móts við þann flokk innistæðubréfa sem þá var á gjalddaga samtals um 123 milljarða kr. sem voru útistandandi í slíkum bréfum.

Flokkurinn er nú 67 milljarða kr. og því ljóst að fjárfestar fá umtalsvert fé í sínar hendur í dag. Að mestu leiti er flokkurinn í eigu erlendra aðila.

Útgáfa ríkisbréfa og -víxla hefur aukist talvert undanfarið og því er minni ástæða fyrir Seðlabankann að mæta þessum gjalddaga með frekari útgáfu innistæðubréfa. Líklegt er að fjármagnið sem losnar leiti í stutt óverðtryggð ríkisskuldabréf.

Það er þó ekki víst en erlendir aðilar hafa verið fremur áhugalitlir um kaup á ríkispappírum undanfarið. Líklegra er að þetta auki enn frekar peningamagn í umferð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×