Innlent

Stækkun Evrópusambandsins frá 1957

Í Evrópusambandinu eru 27 lönd. Sambandið á upphaf sitt að rekja til Kola- og stálbandalags Evrópu, sem stofnað var árið 1951. Í bandalaginu voru Ítalía, Frakkland, Vestur-Þýskaland, Holland, Belgía og Lúxemborg. Árið 1957 skrifuðu löndin undir samning um efnahagslega samvinnu og var þá kominn vísir að ESB.

Árið 1973 gengu Danir, Írar og Bretar inn í sambandið. Noregur átti að ganga í sambandið á sama tíma en aðild var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Grikkir gengu í sambandið árið 1981 og Spánverjar og Portúgalar fimm árum síðar. Sama ár var formlegur fáni sambandsins tekinn í gagnið og eru á honum 12 stjörnur, fyrir þau aðildarlönd sem voru í sambandinu árið 1986.

ESB eins og við þekkjum það nú var stofnað formlega 1. nóvember 1993, með Maastricht-sáttmálanum. Í honum er til dæmis kveðið á sameiginlegan gjaldmiðil, evruna. Tveimur árum síðar gengu Austurríki, Svíþjóð og Finnland í sambandið en þau tvö síðastnefndu voru fyrir í EES.

Árið 2004 var svo stærsta stækkun ESB þegar Malta, Kýpur, Slóvenía, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland gengu í sambandið.

Þremur árum síðar gengu nýjustu Rúmenía og Búlgaría inn. Þrjú lönd bíða enn inngöngu, Króatía, Tyrkland og Makedónía. Líklegir umsækjendur næstu árin eru Bosnía og Hersegóvína, Albanía, Svartfjallaland og Serbía. Kósovó kæmi einnig til greina en ESB viðurkennir það ekki sem sjálfstætt ríki. vidir@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×