Viðskipti innlent

Útilokar ekki að vextir lækki á fimmtudag

Greining Íslandsbanka útilokar ekki að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka vexti bankans lítillega og hafa líkur á vaxtalækkun á bilinu 0,5-1,0 prósentustig verið að aukast.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að þar að baki sé bæði stöðugleikasáttmálinn sem náðist á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í síðustu viku og sú langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram.

Ljóst er að talsverður þrýstingur er af hálfu aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um vaxtalækkun. Þessu til viðbótar hafa markaðsvextir hækkað talsvert frá síðustu vaxtaákvörðun bankans og voru þar á ferð viðbrögð við talsvert aðhaldssamari tón í yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans.

Samt sem áður væntir greiningin þess að vextir bankans verði óbreyttir í 12%. Gengi krónunnar hefur lækkað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun bankans fyrir tæpum mánuði, verðbólgan aukist og framundan er afnám hafta á gjaldeyrismarkaði.

Með stöðugleika krónunnar að markmiði er það mat greiningarinnar að líklegast muni peningastefnunefnd bankans ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Hið sama gildir um innlánsvexti en við þær aðstæður sem nú eru uppi í fjármálakerfinu þar sem gnægð er af lausu fé í umferð skipta þeir vextir nær meira máli en stýrivextir bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×