Viðskipti innlent

Takmörkuð þekking í bönkunum til að hámarka endurheimtingu lána

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Mats Josefsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu fjármálakerfisins.
Mats Josefsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu fjármálakerfisins.
Í nýlegu frumvarpi um bankasýslu kemur fram að með stofnun hennar verði bankasýslan eigandi bankanna fyrir hönd ríkisins þar til endurskipulagningu á þeim er að fullu lokið. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, lagði frumvarpið fram þann 19. júní síðastliðinn. Mats Josefsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, telur að í bönkunum sé takmörkuð þekking og þjálfun á því að hámarka endurheimtur lána og því sé stofnun eignaumsýslufélags í eigu ríkisins besta lausnin.

„Bankasýsla mun draga verulega úr áhættu á pólitískum afskiptum og með henni verður eignarhaldinu á bönkunum í reynd haldið í nokkurri fjarlægð frá stjórnmálunum. Skipan stjórnar bankasýslu og ráðning starfsfólks er lykilatriði sem byggjast verður á faglegum grunni,“ sagði Mats Josefsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu fjármálakerfisins, á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í gær.  

Mats segir að til þess að endurskipulagning bankakerfisins verði skilvirk og skjótvirk, sé rétt að bankasýslan eigi líka eignaumsýslufélag (EUF).

  

Stofnun EUF er hefðbundin aðferð til að takast á við lán í vanskilum og sjá um lakar eignir við endurskipulagningu banka.

Tilgangur EUF er alltaf að lágmarka tap af eignum banka, annað hvort tap hluthafa eða hins opinbera sem taka á sig endanlega ábyrgð á bankakerfinu. Hugmyndin er sú að EUF sé fremur lítið félag eða fyrirtæki sem ráði þó yfir sérhæfðu og vel þjálfuðu starfsliði. Félagið á að lágmarka tap með því annað hvort að auka eignagæði sem fyrir eru eða með því að hámarka endurheimtur útlána.

Mats telur að í bönkunum sé takmörkuð þekking og þjálfun á því að hámarka endurheimtur lána sem og til að endurskipuleggja skuldir á skilvirkan hátt.

Ekki þykir ráðlegt að starfsmenn bankanna sem upprunalega veittu eða samþykktu þau lán sem ekki hafa endurheimst, taki þátt í endurskipulagningu þeirra. Auk þess geti utanaðkomandi sérfræðingar líka lagt mat á hvort eitthvað rangt hafi verið gert í upphafi.

Ennfremur segir í máli Mats að sérfræðingar á vegum EUF geti frekar en bankamenn sinnt fjármálalegri og rekstrarlegri endurskipulagningu þar sem bankamönnum skortir reynslu til að reka fyrirtæki.

Eignaumsýslufélög sjá vanalega um að selja fyrirtæki í hendur einkaaðila að  endurskipulagningu lokinni. Ljóst þykir að sú verður raunin hjá íslensku bönkunum þó ekki sé á hreinu að hve stórum hluta, að minnsta kosti til að byrja með.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×