Viðskipti innlent

Endurskoðunarákvæði Icesave hagstæð Íslendingum

Jakob Möller hrl. segir að ákvæði um endurskoðun samningsins, verði endurgreiðsla íslenska ríkinu um megn, séu mjög hagfelld lántakanum:. Um þetta segir Jakob: ,,Fullyrða má, að ákvæði þessi séu lántaka mjög í hag, og eru ella a.m.k. nánast óþekkt í lánasamningum, og ákvæðin að auki hagfelldari en gengur og gerist í viðskiptasamningum."

Að ósk utanríkisráðuneytisins hefur Jakob R. Möller hrl. tekið saman álitsgerð um Icesave samningana við Hollendinga og Breta. Í henni fjallar Jakob um mörg helstu álitamálin sem uppi hafa verið í almennri umræðu frá því skrifað var undir samkomulagið þann 5. júní.

Helstu niðurstöður Jakobs eru þessar en þær má finna í heild á vefsíðunni www.island.is :

Í samningunum eru mikilvæg ákvæði sem heimila greiðslur fyrir gjalddaga að hluta eða öllu leyti og þar með niðurgreiðslu á höfuðstól, með þriggja daga fyrirvara. Þetta er hagkvæmari lántaka en almennt gerist í lánasamningum.

Að mati lögmannsins eru eignir ríkisins erlendis ekki aðfararhæfar, nema því aðeins að um sé að ræða sambærilega eign og einkaaðili á, t.d. verslun sem rekin er í nafni íslenska ríkisins. Af þessu leiðir að sendiráð njóta t.d. fullkominnar verndar. Sama gildir um allar eignir Seðlabanka Íslands bæði innanlands og utan. Innlendar eignir ríkisins eru ekki aðfararhæfar, nema þá þær eignir sem eru ,,öldungis sambærilegar við samskonar eignir einkaaðila."

Vaxtakjör íslenska ríkisins eru ,,ekki tiltakanlega há miðað við lánasamning til 15 ára."

Ákvæði í samningnum um jafna meðferð kröfuhafa eru eðlileg og sambærileg við algeng ákvæði í alþjóðlegum lánasamningum.

Vanefndarákvæði eða gjaldfellingarákvæði, ef til þess kemur að íslenska ríkið eða stjórnarstofnun undir ríkis eða ráðherravaldi, standi ekki skil á greiðslum, eru sambærileg við ákvæði í ýmsum öðrum lánasamningum íslenska ríkisins undanfarinn ár og áratugi.

Um samninginn gilda bresk lög og er það venja í alþjóðlegum samningum segir Jakob í áliti sínu, að lánasamningar séu háðir lögum lands lánveitenda og undir lögsögu dómstóla í heimaríki hans. Rétt er að benda á að íslenska ríkið hefur margsinnis áður gert samninga sem háðir hafa verið erlendum lögum. Þetta eitt, segir Jakob, hefur þó ekki verið talið að feli í sér skerðingu á fullveldi Íslands. Jakob dregur hins vegar ekki dul á að betra hefði verið að óháður gerðadómur skæri úr um ágreining, ef hann rís.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×