Viðskipti innlent

SPM var ekki lengur varinn gegn fullnustuaðgerðum kröfuhafa

Að baki ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins (FME) að skipa nýja stjórn yfir Sparisjóði Mýrarsýslu lá sú staðreynd að SPM naut ekki lengur verndar gegn fullnustuaðgerðum kröfuhafa. Sú staða kom upp þegar greiðslustöðvun SPM rann út þann 30. júní s.l.

Samkvæmt upplýsingum frá FME óskaði SPM því eftir því að sparisjóðnum yrði skipuð bráðabirgðastjórn og tók FME beiðni sjóðsins til greina enda ljóst að aðstæður SPM eru með þeim hætti að slíkt var nauðsynlegt samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Bráðabirgðastjórn skal svo fljótt sem verða má gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá yfirsýn yfir fjárhag Sparisjóðs Mýrasýslu en skuldirnar nema tæpum 40 milljörðum kr.

Á meðan bráðbirgðastjórn ræður yfir sjóðnum gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustuaðgerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart honum og ef sjóðurinn hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar.

Í fyrravor stóð til að Kaupþing myndi yfirtaka SPM en forsendur fyrir því brustu í október þegar FME skipaði skilanefnd yfir Kaupþing í kjölfar bankahrunsins.

Í framhaldinu hóf SPM viðræður við erlenda lánadrottna um lækkun og umbreytingu á stofnfé með samruna við Nýja Kaupþing sem lokatakmark. Sökum þessa undirrituðu helstu kröfuhafar samkomulag um tímabundna greiðslufrystingu í janúar s.l. Það samkomulag rann svo út í apríl. Í framhaldinu fékk SPM svo greiðslustöðvun sem rann út um síðustu mánaðarmót.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×