Viðskipti innlent

Vefsíðan iceslave opnuð

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu vegna samnings íslenskra stjórnvalda og tryggingarsjóðs innistæðueigendanna hefur verið sett á stofn vefsíðan www.iceslave.is þar sem Íslendingar geta séð heildarstöðu Icesave skuldar þjóðarinnar.

Í tilkynningu segir að á vefsíðunni er hægt að áætla hversu hátt hlutfall upp í heildarskuldbindingu ríkisins vegna Icesave eignir Landsbankans ná. Þá er og hægt að sjá væntanlega stöðu skuldarinnar í framtíðinni, til dæmis við lok hins 7 ára greiðslufrests sem felst í lánasamningunum við Hollendinga og Breta. Einnig má sjá þá áætluðu vexti af Icesaveláninu sem safnast upp á meðan síðan er heimsótt.

"Þegar þessi tilkynning var samin námu skuldbindingar ríkisins 747.943.356.077 kr. samkvæmt Iceslave skuldaklukkunni.

Ef eignir Landsbankans ná upp í 100% af upphaflegu láni vegna Icesave, þurfa íslendingar að greiða 331.407.558.501 kr. að loknum 7 ára greiðslufresti lánsins vegna uppsafnaðs vaxtakostnaðar samkvæmt skuldaklukkunni.

Skuldbindingar vegna Icesavesamkomulagsins í árslok 2015 mun nema 1.060.289.783.222 kr. miðað við óbreytt gengi og verðlag samkvæmt skuldaklukkunni," segir í tilkynningunni.

Það er von aðstandenda síðunnar að hún veiti almenningi upplýsingar um stöðu skuldarinnar beint og milliliðalaust og verði þess valdandi að sem flestir átti sig á þeim miklu skuldbindingum sem fylgja því að gangast undir nauðungarsamninga við Breta og Hollendinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×