Viðskipti innlent

Áfram niðursveifla á íbúðaverði í höfuðborginni

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 2,6% milli mars og apríl samkvæmt upplýsingum sem Fasteignaskrá Íslands birti í gær. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur samkvæmt vísitölu Fasteignaskrár lækkað samfellt undanfarna níu mánuði og nemur lækkunin á þeim tíma samtals 10%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að mikill viðsnúningur hefur nú orðið á íbúðamarkaði sem einkennist af mun minni umsvifum og veltu en áður sást og þá hefur tímabil verðlækkana leyst af hólmi tímabil gríðarlega verðhækkana sem einkenndu undangengna uppsveiflu.

Frá því að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu náði toppi í lok árs 2007 hefur það lækkað um 12% að nafnvirði og 26% að raunvirði. Nú þegar er því kominn fram um það bil helmingur þeirrar raunverðslækkunar sem Seðlabankinn spáir að verði á íbúðamarkaði frá árslokum 2007 og fram til ársloka 2010 en á því tímabili spáir Seðlabankinn að íbúðaverð muni lækka um 46% að raunvirði.

Greiningin gerir ráð fyrir viðlíka lækkun og spá Seðlabankans og gerum ráð fyrir að íbúðaverð muni lækka um 20% að nafnverði á þessu ári, en um það bil helmingur þeirrar lækkunar er nú þegar kominn fram, og að íbúðaverð lækki svo um 10% til viðbótar á næsta ári.

Þetta samsvarar því að íbúðaverð komi til með að lækka um tæplega helming að raunvirði frá toppi og þar til áhrifa fjármálakreppunnar og fylgifiska hennar hætti að gæta á íbúðamarkaði í árslok 2010 sem er sama niðurstaða og Seðlabankinn gerir ráð fyrir.

Í ljósi þeirra efnahagsaðstæðna sem nú ríkja er lækkun á íbúðamarkaði óhjákvæmileg. Reynslan sýnir að hagkerfi sem lenda í viðlíka áföllum og fjármálakreppu ganga í kjölfarið í gegnum tímabil verðlækkana húsnæðis. Yfirleitt varir niðursveiflan á húsnæðismarkaði í tvö ár í kjölfar fjármálakreppu en útlit er fyrir að niðursveiflan verði allt að 3 ár hér og muni því taka lengri tíma en annars staðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×