Viðskipti innlent

Auroru-sjóður úthlutar 11 milljónum til hönnuða

Hönnunarsjóður Auroru mun úthluta styrkjum til íslenskra hönnuða í hádeginu á morgun, miðvikudag, á Kjarvalsstöðum. Um er að ræða fyrstu úthlutun sjóðsins sem var stofnaður fyrr á árinu af Auroru velgerðarsjóði. Um er að ræða 11 milljónir kr. til 9 aðila.

Í tilkynningu segir að sjóðnum er ætlað að styðja við framúrskarandi hönnuði, efla grasrótarstarf í hönnun og vera vettvangur hugmynda og skapandi hugsunar í íslenskri hönnun. Með þessu leggur sjóðurinn sitt af mörkum til eflingar nýsköpunar og sprotastarfsemi á Íslandi.

Að þessu sinni verður 11 milljónum úthlutað til 9 aðila. Sjö hönnuðir fá styrki ásamt tveimur samstarfsverkefnum Hönnunarsjóðs Auroru.

Um þessar mundir stendur yfir sýningin „Hönnun 2009" á Kjarvalsstöðum sem er á vegum Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Listasafns Íslands. Hönnunarsjóður Auroru kynnir þar til leiks vaxtarsprota íslenskrar hönnunar, 5 upprennandi og efnilega hönnuði sem sýna verk sín á sýningunni en sá hluti sýningarinnar er fyrsta opinbera verkefni sjóðsins. Sýningin er hluti af Listahátíð Reykjavíkur.

Næsta úthlutun úr sjóðnum verður á haustmánuðum. Velgerðarsjóður Auroru var stofnaður af athafnamanninum Ólafi Ólafssyni, oft kenndur við Samskip, og eiginkonu hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×