Viðskipti innlent

Byr ræður þýskan sérfræðing vegna endurskipulagningar

Unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins Byr í samstarfi við Fjármálaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið og fleiri hagsmunaaðila. Áhersla er lögð á að tryggja hagsmuni allra aðila sem best og hefur Byr ráðið til sín þýskan sérfræðing í tengslum við þessa vinnu og miðar henni vel.

Í tilkynningu segir að Fjármálaeftirlitinu er jafnframt heimilt að skipa sérfræðing til að fylgjast með fyrrgreindri endurskipulagningu.

Eins og áður hefur komið fram hyggst Byr sparisjóður nýta sér ákvæði í neyðarlögunum svokölluðu frá því í október sl. sem heimilar stjórnvöldum að eigið fé sjóðsins verði aukið um allt að 20%. Ekki liggur fyrir að hve miklu leyti heimildin verður nýtt, en gegn slíku framlagi fengi ríkissjóður stofnfjárbréf í Byr fyrir samsvarandi upphæð og eigið fé Byrs er aukið.

„Hér er því ekki um ríkisstuðning að ræða í hefðbundnum skilningi, heldur kaup á stofnfjárbréfum, sem yrðu, með hliðsjón af yfirlýsingum stjórnvalda, tímabundið í eigu ríkisins," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×